Ein af forsendum þess að umboðsmaður geti rækt lögbundið hlutverk sitt til hlítar og tryggt rétt einstaklinga gagnvart stjórnvöldum landsins er að viðkomandi stjórnvöld afhendi honum þau gögn sem máli skipta hverju sinni.
„Ráðuneyti heilbrigðismála tókst ekki að sýna umboðsmanni fram á að staðfesting ráðherra á skipuriti Landspítalans, sem taka átti gildi 1. janúar 2017 samhliða breytingum á tilteknu sviði, hefði farið fram og verið í samræmi við lög.“
Þetta segir í frétt frá umboðsmanni Alþingis.
„Ein af forsendum þess að umboðsmaður geti rækt lögbundið hlutverk sitt til hlítar og tryggt rétt einstaklinga gagnvart stjórnvöldum landsins er að viðkomandi stjórnvöld afhendi honum þau gögn sem máli skipta hverju sinni. Þrátt fyrir ítrekuð samskipti við ráðuneytið og sérstakar óskir umboðsmanns um að fá afhent eintak af því skipuriti sem ráðherra hefði staðfest í þessu tilviki, fékkst það ekki.
Við athugun umboðsmanns vegna kvörtunar yfir skipulagsbreytingunum þurfti að ganga úr skugga um hvaða skipurit ráðherra hefði staðfest í tengslum við umræddar breytingar og hvernig það uppfyllti skilyrði laga. Af ákvæði í lögum um heilbrigðisþjónustu leiðir að þegar fyrirhugaðar eru breytingar á skipuriti stofnunar sem lögin taka til, er skylt að leggja tillögu þar að lútandi fyrir ráðherra til staðfestingar. Staðfesting ráðherra er svo skilyrði fyrir að nýtt eða breytt skipurit heilbrigðisstofnunar taki lögformlegt gildi. Þá ber ráðherra að hafa eftirlit með því að nýtt skipurit eða breytingar á skipuriti samrýmist lögum. Af þeim gögnum sem umboðsmanni bárust var ekki hægt að ráða hvort staðfesting ráðherra hefði farið fram og verið í samræmi við lög.
Mælst er til þess í álitinu að ráðuneytið fjalli um þær breytingar sem gerðar voru á skipuritinu samhliða breytingum á umræddu sviði og hafi þá eftirlit með lögmæti breytinganna. Að lokinni þeirri umfjöllun verði hið staðfesta skipurit birt með opinberum hætti. Jafnframt beindi umboðsmaður því til heilbrigðisráðuneytisins og Landspítala að taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem fram kæmu í álitinu.“