Síðast en ekki síst telur spítalinn fjármálaráðuneytið vanreikna kostnað vegna kjarasamninga.
„Fjárheimildir til spítalans eru lægri en duga fyrir þjónustu,“ skrifar Björn Leví Gunnarsson, Pírati og fulltrúi í fjárlaganefnd Alþingis, í Mogga dagsins.
„Fjármálaráðuneytið vanreiknar kostnað og gerir þannig óbeina aðhaldskröfu á spítalann og það er ekki enn búið að laga fráflæðisvandann og mönnunarvandann. Spítalinn hefur fært sannfærandi rök fyrir þessum frávikum frá fjárheimildum en hvorki heilbrigðisráðuneytið né fjármálaráðuneytið hafa svarað hvað skuli gera til þess að koma til móts við vandann. Skilaboð heilbrigðisráðherra eru að það eigi ekki að skera niður þjónustu en þau skjöl sem fjárlaganefnd hefur í höndunum benda til þess að það sé óhjákvæmilegt. Ef það gerist, þá er það pólitísk ákvörðun og ábyrgðin er pólitísk,“ skrifar Björn Leví.
Hvað veldur þessu? Jú, fjármálaráðuneytið beitir röngum útreikningum sem sjá til þess að rekstur sjúkrahússins kostar meira en ráðuneytið setur fram. Ekki er stuðst við veruleikann. Björn Leví:
„Þótt það sé allrar athygli vert að spítalinn verði að fara í aðhaldsaðgerðir og skerðingu á þjónustu til þess að greiða upp núverandi halla er enn athyglisverðara að skoða hvers vegna spítalinn glímir við hallarekstur. Í minnisblaði spítalans sem fjárlaganefnd fór yfir með stjórnendum spítalans sl. miðvikudag voru skilaboðin skýr. Hallarekstur spítalans sé m.a. vegna hins svokallaða fráflæðisvanda. Fólk sem hefur lokið meðferð kemst ekki í hagkvæmari umönnunarúrræði og liggur því í dýrum sjúkrahúsrýmum. Hallareksturinn megi jafnframt rekja til þess að það hefur verið erfitt að manna mikilvægar stöður hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða, meðal annars vegna þess hvernig stjórnvöld hafa klúðrað kjarasamningum sem hafa endað í gerðardómi. Síðast en ekki síst telur spítalinn fjármálaráðuneytið vanreikna kostnað vegna kjarasamninga. Það þýðir einfaldlega að spítalinn þarf að eyða miklu meira af fjárheimildum sínum í laun en ráðuneytið gerir ráð fyrir. Þetta hefur spítalinn útskýrt fyrir fjárlaganefnd oftar en einu sinni en einhverra hluta vegna eru ekki gerðar neinar lagfæringar eða útskýrt hvernig þessar fullyrðingar spítalans séu rangar.“