„Lögbrot Húsasmiðjunnar áttu sér stað meðan fyrirtækið var í eigu Landsbankans og Framtakssjóðs og það er Landsbankinn sem tekur á sig greiðslu 325 milljón króna sektarinnar. Með öðrum orðum, landsmenn töpuðu á samkeppnislagabrotum Húsasmiðjunnar og Byko og nú borga landsmenn sektina fyrir það sem aðaleigendur Landsbankans.“ Þetta segir í skrifum Baldurs Björnssonar, eiganda og framkvæmdastjóra Múrbúðarinnar, af tilefni þess að fyrrverandi forráðamenn Húsasmiðjunnar hafa gengist inn á að borga 325 milljónir króna um leið og játuð eru samkeppnisbrot.
Baldur telur rétt að benda á að þótt fyrrum eigendur Húsasmiðjunnar hafi tekið að sér að greiða sektina, þá byggir núverandi markaðsstaða Húsasmiðjunnar á ólögmætri samkeppnishegðun fyrirtækisins á sínum tíma. Þeir starfsmenn Húsasmiðjunnar sem brutu samkeppnislög starfa þar enn, þó að þeir sæti sakamálaákæru.
Bréf Baldurs birtist á eirikurjonsson.is.
Þar segir ennfremur: „Viðurkenning Húsasmiðjunnar á alvarlegum samkeppnislagabrotum og greiðsla 325 milljón króna sektar varpar ljósi á þau óhæfuverk sem Húsasmiðjan og Byko stunduðu gegn neytendum og Múrbúðinni.
Samráð þessara tveggja fyrirtækja um verðlagningu á byggingavörum hefur hækkað byggingarkostnað um milljarða króna, með tilheyrandi vísitöluhækkun á lánum heimila og fyrirtækja.
Samráð Húsasmiðjunnar og Byko gegn Múrbúðinni fólst í samkeppnishamlandi verðlagningu sem leiddi til þess að Múrbúðin varð að hætta sölu á timbri og grófvöru. Þar með ruddu þessi fyrirtæki úr vegi einu alvöru samkeppninni sem var á þessum markaði.
Í frétt Samkeppniseftirlitsins um sektargreiðslu Húsasmiðjunnar kemur fram að samráð hennar og Byko hafi einkum gengið út á að koma í veg fyrir að Múrbúðin næði fótfestu á markaði fyrir timbur og grófvöru. Meðal annars er upplýst að Húsasmiðjan viðurkennir að hafa beitt sér til að koma í veg fyrir að Múrbúðin fengi viðunandi viðskiptakjör hjá Steinullarverksmiðjunni. Húsasmiðjan og Byko áttu 50% í Steinullarverksmiðjunni. Á sínum tíma fullyrti forstjóri Steinullarverksmiðjunnar við Múrbúðina að þrýstingur eigenda hefði engin áhrif á viðskiptakjörin. Nú hefur hið gagnstæða verið staðfest. Það skýrir að sjálfsögðu hvers vegna Steinullarverksmiðjan var ófáanleg til að veita Múrbúðinni ásættanleg viðskiptakjör og kom þannig í veg fyrir verðlækkun á vörunni.“