Höf. Birgir Dýrfjörð
Stundum er sagt í háði um fólk, sem óttast efnaða útlendinga og elur á andúð á rafmagni og málmum, að skoðanir þess eigi best heima landnámsmegin við lýðveldistökuna.
Á fyrstu öldum Íslandsbyggðar notuðu Íslendingar alþjóðlegan gjaldmiðil, sem var gull og silfur. Þá var myntslátta ekki algeng og málmurinn því veginn.
Minnsta eining silfurs var örtugur og voru þrír í eyri og átta aurar í mörk (214 gr.) Einn eyrir var því 26,75 gr. silfurs.
Gjaldeyrishrun og kúgildi.
Undir aldamótin 1100 hafði gengið mjög á silfursjóði í landinu og engin úrræði voru um aðgengi að alþjóðlegum gjaldmiðli.
Þá var samþykkt á Alþingi „lögauraskrá.“ Í henni varð kýrin aðal verðfótur og alin af vaðmáli varð aðal gjaldmiðill.
Kýr þrevetur eða eldri, 10 vetra eða yngri, kálfbær heilspena og mylk, hyrnd og lastalaus og héraðsræk að fardögum, sú var gjaldgengt kúgildi.
Eða; sex ær, tvær tvævetrar og fjórar gamlar og ali lömb sín órotnar loðnar og lembdar.
Eða; 120 álnir vaðmáls. (2 álna breitt) Sex álnir vaðmáls jafngiltu einum eyri eða 26,75 gr.silfurs.
Á 15. öld varð fiskur gildur gjaldmiðill og voru tveir þorskar í alin vaðmáls. (um 4 kg.)
Um 1200 gerði Alþingi samþykkt; „um lög, hversu menn skulu kaupast við“. (Búalög) Landið var gjaldeyrislaust með tilheyrandi kyrrstöðu.
Kúgildi og forn verðlagning Búalaganna hélst því lítið breytt í sjö hundruð ár.
“En 1817 var henni sýnd sú virðing, að sett var skrá yfir helstu verðeiningar hennar, sem einskonar árleg gengisskráning þeirra, og þessi verðlagsskrá var birt árlega af stjórnvöldunum þar til 1964.“ (A.S.) Af þeirri árlegu gengisskráningu má rekja að gengi krónunnar réðst mest af verðlagi og magni sjávarafla og þörfinni að minnka kaupmátt til að spara gjaldeyri.
Þorskgildi.
Sú var tíð að íslensk króna var jafngild danskri krónu sem gjaldmiðill. Innlend gengisskráning hennar, sem ræðst ekki lengur af kúgildi heldur kostnaði á þorskgildi, hefur rýrt hana 2500 falt. Íslenska krónan er helst orðin mælieining á allskonar vísitölur, framfærsluvísitölu, og kaupgjalds og bygginga og lánskjaravísitölu o.s.frv.
Nú er lögbrot að nota ísl. krónu sem verðeiningu í viðskiptum erlendis. Hún er ónýt sem alþjóðlegur gjaldmiðill. Hún er ónýt sem mælikvarði á arðsemi fjárfestinga og hún er ónýt í lánaviðskiptum.
Íslenska þjóðin tekst nú á við gjaldeyriskreppu. Því er spurt; Velur hún eymdina landnámsmegin við lýðveldistökuna?
(Helstu heimildir Búalög, og formáli Arnórs Sigurjónssonar að endurútgáfu þeirra.)