Það var nánast ótrúlegt að hlusta á Daða Má Kristófersson, í Kveiki á þriðjudaginn, tala um stöðu landbúnaðar. Og hvernig hinum háu styrkjum er beitt til að halda í rautt kjöt og mjólk. Einn helsti talsmaður þess sem var og þess sem er Guðni Ágústsson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra. Hann skrifar í Moggann.
„Þessi þáttur sagði aðeins eitt um það hvernig komið er fyrir landbúnaðinum í kerfinu, ekki að hann sé dauðadæmdur. Og ég vil túlka orð Daða Más svo, að verði ekki ný stefna mótuð og víðtækari landbúnaðarsýn mörkuð til langs tíma, deyr landbúnaðurinn drottni sínum. „Það er fleira landbúnaður en ær og kýr.“ Hér er komin spurningin hvað viljum við sjálf sem þjóð og hvað getum við gert til að þessi fullyrðing Daða Más gangi ekki eftir? Gangi hún eftir er stærstur hluti sveitanna að fara í eyði og heilu þorpin og bæirnir á landsbyggðinni bíða mikinn hnekki.“
Víst má telja að kalla verður eftir nýjum viðhorfum. Núverandi stefna er uppurin. Handónýt.
Í grein Guðna er þetta að finna: Guðrún Tryggvadóttir, formaður Bændasamtakanna, sagði í sínum upphafsorðum: „Ekkert í boði annað en við förum í breytingar.“
Þá er spurt. Hver á að móta breytingarnar? Varla sama fólk og ber ábyrgð á hvernig komið er fyrir íslenskum landbúnaði?
–sme