Mannlíf

Landbúnaðarsafnið opnar á nýjum stað

By Sigrún Erna Geirsdóttir

October 02, 2014

Landbúnaðarsafn Íslands opnar formlega í dag á nýjum stað, Halldórsfjósi á Hvanneyri, og hefst dagskrá klukkan 16. Boðið verður upp á tónlist, ávörp og veitingar. Þá mun sérverslunin Ullarselið sem selur ullarvörur og íslenskt handverk opna á sama tíma.

Landbúnaðarsafnið var lengi hluti af Bændaskólanum á Hvanneyri en árið 2007 var stofnuð sjálfseignarstofnun um safnið. Safninu er ætlað að sýna þróun og sögu íslensks landbúnaðar með því að varðveita gögn, gripi og aðrar minjar, sem og að framkvæma rannsóknir og vera með fræðslu. Safnið hefur lagt sérstaka áherslu á sögu landbúnaðar hér á landi frá byrjun tæknialdar.

Halldórsfjós var byggt á árunum 1928-1929 fyrir 70 mjólkurkýr og var þá annað stærsta fjós landsins.

Allir eru boðnir velkomnir. Sjá nánar hér, á vef Landbúnaðarháskóla Íslands.