Hvað skýrir viljaleysi stjórnvalda gegn óheftum landakaupum á Íslandi? Sannast ekki bara enn og aftur að íslensk stjórnmál snúast fyrst og síðast um hagsmunagæslu? Væri vilji til að setja höft gegn landasölu væri búið að því.
Ívar Valgarðsson, sem teiknar allt of sjaldan í Moggann, hittir enn naglann á höfuðið með mynd sinni í blaðinu í dag. „Fréttaskýring“ Ívars er eflaust hárrétt. Peningar skipta miklu og margir falla þegar þeir eru í boði. Jafnt jarðareigendur og aðrir. Hvað með stjórnmálamenn?
Villi Bjarna, Vilhjálmur Bjarnason fyrrum þingmaður, skrifar í Moggann í dag. Þar segir hann:
„Þegar kemur að söfnun á löndum, þá þarf að huga að efni máls. Hvað býr undir? Hvort heldur útlendingur eða Íslendingur kaupir. Það er talað um gegnsæi í viðskiptum á verðbréfamarkaði. Það sama á við um eignarhald á landi.
Það ber að gjalda sérstakan varhug við því ef ætla má að erlend þjóðríki hyggi á landakaup, umfram þarfir vegna sendiráða. Hvað er eftirsóknarvert við Grímsstaði á Fjöllum annað en víðáttur, 1% af Íslandi? Það er mikil ást á víðáttu að kaupa það fyrir fúlgur, sem fólk skilur ekki. Skýringar eins hugsanlegs kaupanda voru ekki trúverðugar. Höfn í Finnafirði þarfnast skýringa.
Það er álitamál hvort ekki sé nauðsynlegt að fjalla um landasöfnun út frá þjóðaröryggi. Smá þjóðríki eru jafnvel agnarsmá andspænis efnafólki í fjarlægum alþýðulýðveldum eða andspænis kexframleiðanda. Hinn smái hefur þó að lokum löggjafarvaldið í hendi sér. Það kann að vera björg í því.“
Má vera rétt að við höfum löggjafarvaldið. Hins vegar er óskýrt hvers vegna því er ekki beitt.