Fiskkaupendur komast upp með að fela skilaverð á fiski. Þetta gerist sem sívaxandi útflutningi á óunnum fiski. Svo mikið er um þetta að fiskvinnslur og fiskmarkaðir eru í hættu.
Lilja Rafney Magnúsdóttir, Vinstri grænum og formaður atvinnuveganefndar Alþingis, segir í Mogganum í dag, að fiskur sem fari beint í gáma sé ekki boðinn upp á fiskmörkuðum. Lilja segist þar hafa áhyggjur af stöðu fiskmarkaða, minni útgerðum sem treysti á markaðina og fiskvinnslufyrirtækjum sem þurfi að geta reitt sig á framboð á fiskmörkuðum til að geta haldið uppi starfsemi allan ársins hring.
„Þetta samspil er mikilvægt og ef einhverjar stoðir bresta getur það haft áhrif víða. Þá er það líka áhyggjuefni ef rétt verð skilar sér ekki til sjómanna þegar landað er yfir bryggju og fiskur er síðan seldur á allt öðru verði til þriðja aðila,“ segir Lilja Rafney í Mogganum.
Meira úr Mogganum: „Megináhyggjuefnið er þessi stóraukni útflutningur og að fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu séu komin til sögunnar, án þess að tengjast fiskvinnslu eða útgerð og gera gagngert út á það að kaupa á mörkuðum til þess að flytja út óunninn fisk til vinnslu erlendis. Þar á meðal er land eins og Pólland þar sem laun eru miklu lægri en á Íslandi, en á þennan hátt flyst verðmætasköpunin úr landi,“ segir Lilja Rafney í Moggaviðtalinu.