Það virðist bíða frambjóðenda Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík að leggja af stað í kosningabaráttuna í Reykjavík með 35 ára gamla stefnuskrá, stefnuskrána sem Davíð nýtti þegar hann vann borgina á ný, eftir að vinstri meirihluti hafði stýrt borginni í eitt kjörtímabil.
Eitt vantar þó í stefnuskrána, eitt sem er ekki notað nú. 1982 barðist Davíð gegn byggð við Rauðavatn, sagði þar vera jarðsprungusvæði og óráð væri að byggja þar. Í dag er starfsstöð Davíð einmitt þar.
Davíð, sem er ótvírætt helsti hugmyndasmiður Sjálfstæðisflokks, berst gegn þéttingu byggðar og eflingu stætó. Enn og aftur kemur hann að þessu í leiðara.
„Borgaryfirvöld ganga afar langt í áróðri sínum gegn fjölskyldubílnum og baráttunni fyrir borgarlínu, og almenningssamgöngum sem þrengja að fjölskyldubílnum,“ skrifar hann og sakar í framhaldi meirihlutann um blekkingar, jafnvel lygar. Um að hafa sagt fleiri ferðast með strætó en gera það í raun.
Sjálfgstæðisflokkurinn hefur gengið eyðimerkurgöngu í borginni og verið áhrifalítill í minnihluta. Þegar Davíð finnur að meirihlutanum nýtir hann tækifærið og lemur létt í höfuð Halldórs Halldórssonar og hans fólks.
„Það er fjarri því boðlegt að borgaryfirvöld skuli beita fjölmennu áróðursliði sínu til að falsa upplýsingar til almennings í því skyni að réttlæta sérviskulega stefnu sína. En hvernig stendur á því að minnihlutinn í borgarstjórn lætur yfirvöld komast upp með svona framgöngu?“
Í borgarstjórnarkosningunum verða átök kynslóða. Annars vegar þeirrar sem hefur búið í erlendum borgum, þeirrar sem hefur ferðast þar daglega með strætó og lestum og hugnast ekki að eiga bíl og reka. Og þeirrar sem enn vill breiðstræti um allt og gatnamót á ótal hæðum. Þeirrar sem hefur aldrei í strætó komið og mun aldrei gera.
Eins verður tekist á um hvort byggð borgarinnar verður mjög dreifð eða hvort rétt er að þétta byggðina, byggja hana upp einsog borg.
Sama hvort það er gott eða ekki fyrir Sjálfstæðisflokkinn, þá hefur stefnuskrá kosninganna verið skrifuð. Hún var skrifuð fyrir aldarfjórðungi. Annað hvort er hún barn síns tíma eða þá klassísk.
Sigurjón M. Egilsson.