Lagðist gegn hækkunum á börn
- skólamáltíðir verða hækkaðar sem og þjónustugjöld aldraðra. Sanna: „...það beri ekki að rukka börn fyrir að fá að borða í skólanum.“
„Ýmislegt sem ég lagði áherslu á í borgarstjórn í dag, í fyrri umræðu um fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar, má þar nefna aukna uppbyggingu félagslegs húsnæðis og hækkun lægstu launa,“ eru orð Sönnu Magdalenu Mörtudóttur.
„Til hagræðingar mætti skoða laun kjörinna fulltrúa og þóknanir en grunnlaun borgarfulltrúa eru rúmlega tvöföld hærri en lægstu laun starfsfólks á leikskólum borgarinnar og þar get ég nú trúað að álagið sé mikið.
Varðandi tillögur að gjaldskrárhækkunum í takt við verðlagsþróun, þá vildi ég sérstaklega koma á framfæri skoðun minni á fyrirhuguðum hækkunum og lét færa eftirfarandi til bókar (200 orða athugasemd sem fer inn í fundargerð):
Engar tekjur, engin gjöld ætti að vera útgangspunktur okkar í allri þjónustu borgarinnar sem við kemur börnum. Fjárhagsáætlun miðar að því að margar gjaldskrár taki hækkunum um 2,9% í samræmi við forsendur um verðlagsþróun. Ég mótmæli öllum gjaldskrárhækkunum á börn sama á hvaða sviðum borgarinnar þær eru fyrirhugaðar. Það er t.d. gert ráð fyrir aukinni gjaldtöku út frá verðlagsforsendum fjárhagsáætlunar, vegna vistunar barna á frístundaheimilum og síðdegishressingu barna en fyrir marga foreldra er þetta verð stór biti til að byrja með og að hækka verðið gæti þyngt róðurinn hjá mörgum, sama á við um t.d. máltíðir í grunnskólum og yfirhöfuð telur borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands að það beri ekki að rukka börn fyrir að fá að borða í skólanum. Þar að auki er mikilvægt að vera meðvitaður um hvernig hækkun getur bitnað á þeim hópum sem standa verst efnahagslega. Á velferðarsviði eru fyrirhugaðar hækkanir á fæði um 2,1%-2,8% og fyrirhugað er að þjónustugjöld í íbúðum aldraðra hækki um 2,9% svo eitthvað sé nefnt. Þar er líklegt að einstaklingar þar geta oft verið í viðkvæmri stöðu efnahagslega og hækkun gæti komið þeim illa, þar sem innkoma þeirra sbr. lífeyri eða bætur, hefur oft ekki hækkað í samræmi við almennar verðhækkanir í samfélaginu.“