- Advertisement -

Lagareldisfrumvarpið: Spjótin standa á Katrínu

„Mín afstaða er raunar sú að ef gengið væri hér á milli fólks í samfélaginu þá væru ekki margir sem myndu mæla gegn því að íslenska þjóðin ætti að vera eigandi auðlindanna.“

Svandís Svavarsdóttir.

Alþingi „Eins og háttvirtum þingmanni er kunnugt fór ég sjálf í skyndilegt veikindaleyfi í janúar og þegar þar var komið sögu var frumvarpið í samráðsgátt um það ákvæði sem háttvirtur þingmaður er sérstaklega að vísa til og snýst um tímabindingu eða ekki tímabindingu á leyfum. Þá hef ég verið sammála hæstvirtum núverandi matvælaráðherra um að það sé mikilvægt að ráðast í breytingar á því ákvæði með það fyrir augum að tímabinda heimildirnar en um leið að gæta sérstaklega að því að það verði ekki á kostnað náttúruverndar og umhverfishagsmuna,“ sagði Svandís Svavarsdóttir, fyrrverandi matvælaráðherra og nú inniviðarráðherra, þegar hún svaraði fyrirspurn Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur.

„Ég þakka hæstvirtum ráðherra svarið. Það er rétt að Ríkisendurskoðun setti fram mjög alvarlegar athugasemdir varðandi fiskeldið og sagði að það væri algjörlega óljóst hvort heimildirnar væru tímabundnar eða ótímabundnar. Svar ríkisstjórnarinnar var að leggja fram frumvarp með ótímabundnum heimildum. Það var svar ríkisstjórnarinnar, sem er að mínu mati ákveðin hneisa. Ég fagna því sérstaklega að bæði matvælaráðherra og núna innviðaráðherra taki undir með okkur í Viðreisn um að það þurfi að vera tímabundnar heimildir í þessu máli. Það skiptir mjög miklu máli á meðan þögn þriðja flokksins, Sjálfstæðisflokksins, fer að mínu mati að verða svolítið ærandi í þessu efni.

„Það þarf öryggisventil í stjórnarskrána. Það er ekki hægt að treysta framkvæmdarvaldinu og meiri hluta þingsins til að tryggja nákvæmlega þetta, að auðlindir þjóðarinnar séu raunverulega í hennar eigu, séu raunverulega undir hennar yfirráðum. Við þurfum alltaf á endanum að tryggja auðlindaákvæði sem tryggir um leið tímabundin afnot af auðlindum í eigu þjóðar. Annað væri hneisa og það væri uppgjöf af okkar hálfu hér í þinginu ef við myndum hleypa auðlindaákvæði með öðrum hætti í gegnum þingið,“ sagði formaður Viðreisnar.

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Mín afstaða er raunar sú að ef gengið væri hér á milli fólks í samfélaginu þá væru ekki margir sem myndu mæla gegn því að íslenska þjóðin ætti að vera eigandi auðlindanna,“ sagði Svandís.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: