- Advertisement -

Sjómannafélagið: Lagabreytingar án heimilda – skítugi leikurinn er hafinn!!

Heiðveig María Einarsdóttir, frambjóðandi til formanns í Sjómannafélagi Íslands, skrifar:

Allt frá síðsta sjómannaverkfalli hef ég fengið mikla hvatningu um að bjóða mig fram til forystu hjá félaginu mínu, Sjómannafélagi Íslands sem og reyndar í öðrum félögum líka. Mér var strax bent á að ég skildi vara mig á núverandi yfirstjórn félagsins sem myndi mjög líklega spila skítugan leik í þessari kosningabaráttu og á sama tíma bárust mér ljótar sögur af reynslu manna við álíka framboðum í öðrum félögum í þessari stétt.

Með þessi varúðarorð á bak við eyrað passaði ég mig að hafa öll samskipti skjalfest, ef mögulega var hægt, og fór að lesa lög félagsins reglulega. Það hvarflaði hins vegar aldrei að mér að ég skildi þurfa að takast á við þær aðstæður sem núna eru komnar upp.

Ég hreinlega trúi ekki enn að ég sé að berjast við eins siðlaus og óforskömmuð öfl sem hafa gjörsamlega sturtað öllu lýðræði og heiðarleika niður í klósettið með gjörðum sínum.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Yfirstjórn Sjómannafélags íslands tók upp á því hjá sjálfri sér, eftir að ég tilkynnti um framboð, að breyta lögum félagsins. Eftir að ég tilkynnti framboð mitt hefur lögum félagsins verið breytt inn á heimasíðu félagsins og látið líta út fyrir að þeim hafi verið breytt á aðalfundi. Þessar breytingar fela í sér að menn megi ekki bjóða sig fram fyrr en þeir hafa greitt í félagið í 3 ár.

Því er haldið fram að lögunum hafi verið breytt á aðalfundi og máli þeirra til staðfestingar senda þeir mér, seint og um síðar meir, svokallað afrit af fundargerðum með þessum lagabreytingum. Þeir senda mér ljósmyndir úr fundagerðarbók félagsins en mér var neitað um að sjá bókina sjálfa þrátt fyrir beiðni þar um á skrifstofu félagsins, ég fæ heldur ekki sendar blaðsíðurnar á undan til að staðfesta að þessar fundargerðir hafi ekki verið færðar inn eftir á.

Einnig er mismunandi letur í fundargerðunum eftir blaðsíðum og þá annað letur á þeirri grein er varðar kjörgengi og var breytt í fundargerðarbókinni. Formaður ritar einn undir fundargerðirnar þó svo að það sé skýrt tekið fram í lögum að ritari beri ábyrgð á fundargerðum félagsins og skuli undirrita þær ásamt formanni.

Í stuttu máli er það svo að við skoðun á lagabreytingum hjá félaginu má sjá að gerðar hafa verið alls 8 breytingar á lögum og lagatexta félagsins. Óljóst er hvort og þá hvenær þessar lagabreytingar voru samþykktar. Breytingarnar voru allar gerðar í október 2018 á heimasíðu félagsins, eftir að ég tilkynnti um framboð mitt.

Samkvæmt afritinu sem ég hef úr fundargerðabókum félagsins var lögð fram ein tillaga að lagabreytingu á aðalfundi 2017, en samt sem áður má sjá 7 aðrar lagabreytingar sem ekki virðast vera tilkynntar á aðalfundi og eru þá ósamþykktar skv. lögum. Þessar breytingar varða allar réttindi okkar félagsmanna. Breytingarnar snúast um kjörgengi, með hvaða hætti leggja skuli fram framboðslista og hvernig skuli auglýsa félagsfundi.

Þetta fikt og sýsl um breytingar á lögum án heimilda er klárlega gert til þess að koma í veg fyrir framboð mitt og tryggja núverandi yfirstjórn áframhaldandi völd. Það sést best á ákvæðinu er varðar framboðslista, en þar segir núna að “sá maður er kjörgengur er greitt hefur í félagið í 3 ár samfellt” en var áður að allir félagsmenn hefðu kjörgengi. Eftir að þessu var breytt í fundargerðabókinni stendur eftir sem áður 7. grein í lögunum sem fjallar um réttindi félagsmanna til að bjóða sig fram til kjörs, en núna er sú grein horfin út af vefnum en er enn í afritum af fundargerðum.

Auk þess á þetta kjörgengis ákvæði sér ekkert fordæmi í neinu öðru félagi að nokkru leyti – hvorki fyrr né síðar.

Félagið okkar er augljóslega í höndum manna sem svífast einskis og telja sig geta gert hvað sem er til þess að tryggja sér völd. Með þessum gjörningi brjóta þeir gegn okkur almennu félagsmönnunum og umfram allt treysta okkur ekki til að velja forystu á lýðræðislegan hátt.

Þessu getum við sjómenn ekki setið undir lengur – alls ekki!

Viljum við félagsmenn að félagið okkar sé í höndum manna er svífast einskis og stýra og stjórna félaginu eftir eigin hagsmunum og geðþótta gegn öllum lögum og reglum ?

Ég mun beita mér af öllu afli til að fá þessum lagabreytingum hnekkt.

Ég mun vinna að því af öllum mínum kröftum að halda áfram að kynna framboð mitt þar sem þessar lagabreytingar standast ekki lög, voru settar fram fyrir eiginhagsmuni yfirstjórnar og til að brjóta á bak nýtt framboð sem félagsmenn geta sjálfir kosið um. Ég lít svo á að framboð mitt sé löglegt.

Réttast væri að þessir menn sæu sóma sinn í að segja af sér þegar í stað og ef aðrir stjórnarmenn hafa ekki vitað af þessu að kalla saman stjórnarfund og leiðrétta þessar ólöglegu lagabreytingar og fikt strax.

Launafólk almennt, ekki bara við sjómenn, höfum misst félögin okkar í hendur fámennra klíka sem hafa farið með félögin eins og þær ættu þau og staðið sig illa í hagsmunabaráttu fyrir félagsmenn sína. Launafólk og þar með sjómenn sætta sig ekki við þetta lengur. Tími svona valdaræningja er liðinn. Punktur.

Að halda að svona aðgerðir virki á mig til uppgjafar og bugunar er svo fjarri lagi að það hálfa væri nóg.

Uppgjöf kemur ekki til greina, hvað þá síður eftir svona óforskammaðar og siðlausar aðgerðir.

Það er algjörlega á kristaltæru að það er enn staðfastara og skýrara fyrir mér að skipta þurfi um forystu og ég mun berjast við þessi öfl til allra síðasta blóðdropa og geri ráð fyrir að félagsmenn fylkist með mér í þessa klikkuðu baráttu sem við erum nú stödd í og saman endurheimtum við félagið okkar og förum að standa vörð um hagsmuni okkar og kjör – nú sem aldrei fyrr.

Heiðveig María Einarsdóttir

Suðvesturmið Reykjaneshrygg

  1. október2018

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: