Sólveig Anna Jónsdóttir skrifar:
Það er merkilegt að fylgjast með þeirri atburðarás sem nú er í gangi. Samtök atvinnulífsins fara fram með óheilindum og blekkingum, þrátt fyrir að blekið sé vart þornað á sameiginlegri yfirlýsingu þeirra með ASÍ en í henni segir m.a.: „Aðilar munu leggja sig fram um að halda góðu samstarfi og munu leggja sitt af mörkum til þess að endurvinna og efla traust sín í milli,“ og segja forsendur Lífskjarasamningsins brostnar. Þetta gera SA þrátt fyrir að þeim sé fullljóst að þetta séu ósannindi; eins og ég og aðrir höfum útskýrt vel og vandlega á síðustu dögum hafa forsendur samningsins staðist. Samtökin eru búin að átta sig á því að okkur verður ekki haggað og þá er farið í risavaxna herferð gagnvart stjórnvöldum í landinu til að fjárkúga út úr þeim „aðgerðir“ fyrir stórfyrirtæki í ferðaþjónustunni. Það er nákvæmlega það sem við verðum nú vitni að: SA fjárkúga stjórnvöld með hótunum um að efna til stórkostlegs ófriðar á vinnumarkaði.
Ég verð að nota tækifærið og minna á það hér að Samtök atvinnulífsins hafa staðið gegn því, algjörlega forhert, að loforð stjórnvalda til verka og láglaunafólks verði uppfyllt, um að hægt verði að leggja févíti á höfuðstól á þær kröfur sem verkalýðsfélög senda út fyrir hönd þeirra fjölmörgu úr hópi vinnandi fólks sem verða fyrir svívirðilegum launaþjófnaði (hjá Eflingu einni sendar út 700 kröfur á síðasta ári, upp á 345 milljónir, meðalupphæð kröfu 500.000 krónur). Þetta er eitt af okkar stóru baráttumálum, náðist inn í loforðapakka stjórnvalda, en þau hafa þó heykst á því að klára málið með ásættanlegum hætti. Hvers vegna? Jú, vegna þess að SA vilja ekki gera launaþjófnað ófýsilegri fyrir þá atvinnurekendur sem eru með það bókstaflega byggt inn í sitt viðskiptamódel að borga ekki rétt laun.
Nú bíðum við öll eftir því að sjá hvort að lýðræðislega kjörin stjórnvöld láti undan fjárkúgun Samtaka atvinnulífsins sem tekið hafa kjarasamninga í gíslingu! Við vitum auðvitað að vald auðstéttarinnar er stórkostlegt á þessu landi en halda SA de facto um valdatauma ríkisvaldsins?