- Advertisement -

Lærdómurinn er að alræði virkar ekki

Gunnar Smári: Þar sem arðsemi rafmagnsveitnanna er mikil og færa eigendum þeirra mikinn arð en það er kalt í húsunum.

Svona virkar einkavædd orkudreifingarkerfi Bandaríkjanna byggt á markaðslausnum, hagnaðarvon og arðsemi. Þetta er fyrirmynd Evrópusambandsins að orkustefnu, og þar með Íslands einnig; að markaðsvæða grunnstoðir samfélagsins, hlutafélagavæða, einkavæða og gróðavæða. Banna hinu lýðræðislega valdi, hinu opinbera, ríki og sveitarfélögum, að byggja upp innviði og veitur með samfélagsleg markmið um að tryggja öllu fólki ódýra og örugga orku. Það sama á orðið við um peningaveitur bankanna, vega- og samgöngukerfi og fjarskipti, húsnæði og brátt einnig um heilbrigðis- og menntakerfi.

Hversu langt niður þessa braut ætlið þið að ganga? Í blindri trú á að hinn svokallaði markaður, en alls ekki lýðræðið, móti best samfélagið? Sú trú stenst bara enga skoðun.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Jafnvel þeir flokkar sem spruttu upp úr verkalýðshreyfingu síðustu aldar loka augunum fyrir þessu.

Það sem enn er gott við samfélögin í okkar heimshluta var byggt upp að lýðræðisaflinu, þegar almenningur hafði enn áhrif í gegnum hreyfingar sínar og flokka. Jafnvel þeir flokkar sem spruttu upp úr verkalýðshreyfingu síðustu aldar loka augunum fyrir þessu. Þeir hafa yfirgefið erindi verkalýðshreyfingar og almannasamtaka og kosið að þjóna hinum svokallaða markaði, sem er auðvitað ekkert annað en auðvaldið.
Það er delluhugmynd að almenningur móti markaðinn með kaupum sínum á vöru og þjónustu. Almenningur er valdalaus á markaðnum, það er vettvangur þar sem hver króna hefur eitt atkvæði og hin allra ríkustu drottna yfir öllu. Í stað þess að trúa á og vinna fyrir lýðræðisvettvanginn, þar sem hver maður hefur eitt atkvæði, hafa þessir flokkar slegist í lið með auðvaldsflokkunum við að flytja vald, auðlindir og eignir almennings frá lýðræðisvettvanginum, almenningsvaldinu, út á markaðinn, til auðvaldsins.

Síðustu fimmtíu árin hafa Bandaríkin verið land sem svo gott sem bannar starfsemi verkalýðsfélaga og þar sem stjórnvöld kæfðu í fæðingu, með ofbeldi og persónulegum ofsóknum, flest allar róttækar baráttuhreyfingar fyrir bættum almannahag. Síðastliðin fjörutíu ár hefur þar ríkt auðræði án andstöðu, andspyrnan birtist fyrst og fremst í róstum á götum úti. Skipulögð barátta almennings hefur verið brotin niður. Fólk sem horfir til Bandaríkjanna eftir fyrirmyndum um samfélagsmál hefur misst allt pólitískt vit, er orðið samfélagslega sturlað og tilbúið að brjóta niður lýðræðið og rétt almennings til að móta samfélagið, svo eftir standi aðeins nakið ógnarvald auðvaldsins.

Þar sem arðsemi rafmagnsveitnanna er mikil og færa eigendum þeirra mikinn arð en það er kalt í húsunum.

Það tók Sovétmenn tæp tuttugu ár að rísa upp gegn sínu kerfi. Hvenær rísum við upp?

Fyrir fimmtíu árum sýndu myndir af tómum hillum verslana í Sovétríkjunum að áætlunarbúskapur Kommúnistaflokksins réð ekki við að dreifa neysluvöru til fólks. Milljón króna rafmagnsreikningur í orkuskorti í miðju kuldakasti sýnir að markaðs- og einkavæðing grunnstoða samfélagsins innan auðræðis gengur heldur ekki upp. Lærdómurinn er að alræði virkar ekki, hvort sem það er alræði fámennrar klíku flokkseigenda eða fjármagnseigenda. Eins og í Sovétríkjunum hefur lýðræðið verið brotið niður á Vesturlöndum og fámennum klíkum falin öll völd í samfélaginu.

Við erum þar, í Sovétinu ca. 1970; kerfi sem hefur afhjúpast um að vinna gegn almannahag vellur áfram og brýtur niður samfélagið. Þetta sjá allir, en það eru of margir sem telja sig hafa persónulegan hag af því að viðhalda kerfinu.

Það tók Sovétmenn tæp tuttugu ár að rísa upp gegn sínu kerfi. Hvenær rísum við upp?


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: