- Advertisement -

Læknar segjast ekki geta lengur tekið ábyrgð á sjúklingum

Svo illa er búið að Landspítalanum að formaður Læknafélags Íslands, Reynir Arngrímsson, sér sig knúinn til að birta opinberlega að; „…að yfirlæknar og sérfræðilæknar telja sig ekki lengur geta borið ábyrgð á mistökum við meðferð sjúklinga sem geta orðið við þessar aðstæður.“

Hann skrifaði þetta í grein sem birt er í Fréttablaðinu í dag. Sem sagt, en hver ber þá ábyrgðina á bráðveiku eða slösuðu fólki? Eru það stjórnmálamenn? Svandís, Bjarni eða Katrín? Eða er það Willum Þór, formaður fjárlaganefndar?

Reynir segir: „Aðstaðan á bráða- og móttökudeildum til að taka við núverandi fjölda bráðveikra sjúklinga er löngu sprungin og alls ófullnægjandi eins og fram hefur komið í lýsingum starfsfólks og sjúklinga sem þangað hafa leitað að undanförnu. Er svo komið að yfirlæknar og sérfræðilæknar telja sig ekki lengur geta borið ábyrgð á mistökum við meðferð sjúklinga sem geta orðið við þessar aðstæður.“

Svona talar enginn læknir af alvöruleysi. Það er vá fyrir dyrum.

Þú gætir haft áhuga á þessum
Reynir Arngrímmsson: Á sama tíma hefur hjúkrunargeta sjúkrahússins verið sprengd með hvatvísum og að því er virðist stundum lítt ígrunduðum ákvörðunum. Mynd: ruv.is.

„Á sama tíma hefur hjúkrunargeta sjúkrahússins verið sprengd með hvatvísum og að því er virðist stundum lítt ígrunduðum ákvörðunum um að spítalinn sinni nýjum átaks- og sérverkefnum með óljósum sparnaði fyrir samfélagið og allra síst hagkvæmni og öryggi fyrir sjúklinga þegar afleiðingarnar eru skoðaðar heildrænt og í samhengi við áhrif á aðra þjónustuþætti. Það kemur því ekki á óvart að aðildarfélög LÍ starfandi á Landspítala hafi í ályktun í byrjun ársins krafist að stjórnendur og heilbrigðisyfirvöld axli ábyrgð á þessum ákvörðunum og stefnu.“

Þarna er kastljósinu beint að Páli Matthíassyni forstjóra spítalans. Reynir Arngrímsson er ekki bara læknir. Hann er formaður Læknafélags Íslands, fagfélags allra lækna landsins og talar því í umboði þeirra allra. Það er alvara þegar hann talar og það ber að hlusta. Læknar telja sig ekki lengur geta, við þær aðstæður sem uppi eru, borið ábyrgð á velferð sjúklinga. Þetta er nánast geggjað ástand.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: