Fréttir

Lækna-Tómas brjálaður: „Er þetta þjónustan sem við viljum bjóða upp á?“

By Ritstjórn

June 03, 2022

Hjartalæknirinn Tómas Guð­bjarts­son, oft kallaður Lækna-Tómas, er brjálaður yfir ástandinu á bráðamóttöku Landspítalans sem hann segir einfaldlega vera að sökkva í sæ. Stöðuna segir læknirinn bæði sorglega og grafalvarlega sem leysa þurfi strax.

Þetta kemur fram í færslu Lækna-Tómasar á Facebook og kemur hún í kjölfar frétta um uppsagnir og uppgjöf á bráðamóttökunni.

Sjá einnig: Soffíu nóg boðið á Landspítalanum: „Get ekki horft uppá þetta lengur“

Tómas er sorgmæddur, eins og sjá má á færslunni:

„Bráðamóttaka sem þarf gjörgæslu.

Það er með ólikindum – og um leið sorglegt – að horfa upp á bráðamóttöku LSH sökkva í sæ. Þetta er ein af lykildeildum sjúkrahússins sem hefur verið ströggla svo árum skiptir – aðallega vegna flæðisvanda sem rekja má til úrræðaleysis í vistunarmálum aldraðra annars staðar í heilbrigðiskerfinu, þ.e. vanda sem orðið hefur til utanhúss.

Sjúklingar eru því bókstaflega vistaðir á göngum bráðamóttökunnar – og komast ekki áfram í kerfinu á legudeildir spítalans – deildir sem þegar eru undirmannaðar og stútfullar af sjúklingum. Vaxandi mannekla bætist síðan ofan á „flæðisvandann“ – sem m.a. stafar af ófullnægjandi kjörum hjúkrunarfólks og aðstöðuleysis í úr sér gengnu húsnæði.

Alvarlegur vandi heilbrigðiskerfi okkar kristallast á bráðamóttöku Landspítala – og þjóðarskömm að ekki sé gripið til alvöru úrræða til að leysa málin. Ekki verður við sprækan forstjóra spítalans og heilbrigðisráðherra að sakast. Þeir hafa virkilega reynt – en kalli þeirra virðist ekki svarað. Nú þarf þverpólitíska sátt um að gera betur í kerfi sem er það alvarlega statt að lykildeildir flaggskips þess – eins og bráðamóttaka spítalans – þurfa á gjörgæslu að halda.

Hvers eiga sjúklingar þessa lands – sem oftar en ekki eru aldraðir – að gjalda ? Er þetta þjónustan sem við viljum bjóða upp á? Eða ætlum við Íslendingar að falla um deild og bjóða í framtíðinni upp á annars flokks heilbrigðisþjónustu?“