Lækkum skatta á óþekkta alþjóðlega stórgróðajöfra
„Ekki er verið að bjarga vegakerfinu sem er að molna niður á vakt Framsóknar og Sjálfstæðisflokks. Átakið, sem svo er kallað, næstu fimm árin samsvarar 6% af þeim verkefnum sem blasa við í samgöngumálum, 6%. Það er átakið.“
„Við höfum verið að ræða fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar næstu fimm árin. Þar eru nokkur atriði sem valdið hafa sérstökum og miklum vonbrigðum og ætla ég að nefna nokkur. Í fyrsta lagi lækkun bankaskattsins. Í öðru lagi áframhaldandi skattlagningu lágtekjufólks. Í þriðja lagi algeran skort á stefnu í samgöngumálum,“ sagði Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Flokks fólksins.
„Lækkun bankaskattsins. Verið að lækka skatta á banka um rúm 62%. Ríkið afsalar sér með því tekjum upp á nær 6 milljarða á ári. Á sama tíma er ekkert gert fyrir láglaunafólk og ekkert fyrir vegakerfið. Hverjir eiga bankana? Hverjum kemur þetta til góða? Ríkið á mest af bönkunum, en hverjir eiga það sem eftir stendur? Það eru óþekktir eigendur vogunarsjóða. Verið er að lækka skatta á óþekkta alþjóðlega stórgróðaauðjöfra. En það á ekki að lækka skatta á tekjuminnsta fólkið, elli- og örorkulífeyrisþega eða láglaunafólk sem greiðir skatt af tekjum sem enginn getur lifað af,“ sagði hann.
„Ekki er verið að bjarga vegakerfinu sem er að molna niður á vakt Framsóknar og Sjálfstæðisflokks. Átakið, sem svo er kallað, næstu fimm árin samsvarar 6% af þeim verkefnum sem blasa við í samgöngumálum, 6%. Það er átakið,“ voru lokaorð Karls Gauta.