Fréttir

„Kvótinn“ tekinn af Laugvetningum

By Miðjan

May 01, 2017

Íbúar á Laugarvatni sjá fram á breytt samfélag. Samfélagið þar hefur fyrst og síðast byggst upp vegna skólanna sem þar eru. Háskóli Íslands, í sínum hremmingum, hefur hætt kennslu í íþróttum á Laugarvatni og ríkið hyggst, að því er heimamenn óttast, en fá engin svör við, loka hvorutveggja íþróttahúsi og sundlaug. Óttast er að ríkið ætli að gjörbreyta samfélaginu á Laugarvatni. Til hins verra. Ætlar að kippa fótunum undan því samfélagi sem þar er. Á Vísi má lesa þetta: „Helgi Kjartansson, oddviti Bláskógabyggðar, óttist að ríkisvaldið ætli að breyta íþróttahúsinu á Laugarvatni í tjaldvagnageymslu því ríkið hefur ákveðið að loka íþróttahúsinu og sundlauginni á staðnum frá 1. júní.“ Kannski er þetta þyngra högg en vofir yfir Akurnesingum vegna gerræðis stjórnenda HB Granda. Munurinn er samt sá, hvað varðar Laugvetninga, að þar er ríkið gerandinn. „Þetta er að veltast á milli ráðuneyta eða háskólinn er held ég enn þá með þetta hjá sér, ætlar að skila þessu til menntamálaráðuneytisins og þaðan sennilega til ríkiseigna og þetta er einhver dilemma og við bara fáum engin svör,“ segir Helgi oddviti á Vísi. Helgi segir að lokunin muni hafa mikil áhrif á Menntaskólann að Laugarvatni. „Ef að húsið bara lokar og ríkið ætlar að nota þetta sem tjaldvagnageymslu eða eitthvað, þá er menntaskólinn náttúrulega í hættu. Hann þarf húsið. Hann getur ekki án hússins verið. Og það er eins með samfélagið hérna – fólk mun náttúrulega bara flytja í burtu, það mun allavega ekki flytja að. Það segir sig sjálft. Þannig að þetta er bara alvarleg staða.“ Nú er að sjá hvað verður. Mun ríkið svipta Laugarvatn lifibrauði sínu?

-sme