Fréttir

Kvótakerfið er rót spillingar og ójöfnuðar

By Aðsendar greinar

September 17, 2023

Sósíalistaflokkurinn:

Sameiginlegur fundur framkvæmda- og málefnastjórna Sósíalistaflokksins varar við ráðagerðum Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra um að festa kvótakerfið í sessi undir yfirvarpi endurskoðunar og lagfæringa.

Eins og fram kemur í skýrslu nefndar ráðherrans telur mikill meirihluti almennings sjávarútveginn á Íslandi spilltan og að undir kvótakerfinu færi hann auð til fárra, ekki fjöldans.

Í erindi Sósíalista Brjótum upp Samherja – endurheimtum auðlindirnar segir meðal annars: 

„Kvótakerfið sem upphaflega var sett á til að vernda fiskistofnana hefur þróast í óskapnað sem hefur í reynd einkavætt fiskimið almennings. Kerfið hefur brotið niður byggðir og safnað upp auð örfárra, svo miklum að hann ógnar lýðræðinu og frelsi almennings. Sósíalistaflokkurinn hefur þá stefnu að leggja niður þetta kerfi og byggja réttlátari umgjörð utan um fiskveiðar og vinnslu. Ný umgjörð þarf að reisa við það sem kvótakerfið braut niður og brjóta upp þá auðhringi sem kvótakerfið bjó til.“

Það á ekki að festa spillt og óréttlátt kvótakerfi í sessi með því að plástra það með veikburða lagfæringu. Kerfi sem mikill meirihluti landsmanna er andsnúinn ber að leggja niður. Og það leggja Sósíalistar til:

Þessar eru tillögur Sósíalista:

Í niðurstöðum Lýðræðiskönnunar sósíalista sem birtar voru á Sósíalistaþingi s.l. vor kemur glögglega fram hversu gríðarlega mikla áherslu sósíalistar leggja á uppstokkun Kvótakerfisins. Bæði í Norðvesturkjördæmi og Norðausturkjördæmi settu sósíalistar Kvótakerfið í fyrsta sæti um mál sem þyrfti að leggja aðaláherslu á í baráttunni fram undan. Í öðrum kjördæmum raðaðist Kvótakerfið líka í efstu sætin. Líkt og meirihluti þjóðarinnar vilja sósíalistar færa arðinn af sjávarauðlindinni til þjóðarinnar. Þannig verði meðal annars hægt að fjármagna heilbrigðiskerfið og húsnæðiskerfið sem einnig voru þau mál sem röðuðust hæst í Lýðræðiskönnuninni.