- Advertisement -

Kvenfjandsamleg hugmyndafræði Sigmundar Davíðs

Sóley Tómasdóttir skrifaði: „Það er freistandi að afgreiða grein Sigmundar Davíðs sem þvælu og bull – jafnvel sjá fyrir sér að hann hafi setið að sumbli á Klaustri á meðan á skrifum stóð. En það er hættulegt. Við verðum öll sem eitt að svara, leiðrétta og mótmæla rasískri, fóbískri og kvenfjandsamlegri hugmyndafræði hans og hans líka.

Hér er grein eftir mig og 80 önnur, stuðningsfólk Black Lives Matter:

Á laugardaginn birtist heilsíðugrein eftir formann Miðflokksins í Morgunblaðinu. Sú grein inniheldur ýmsar rangfærslur sem beinast einkum að réttindabaráttu Black Lives Matter hreyfingarinnar en einnig öðrum hreyfingum sem berjast fyrir réttlæti. Í þessari grein munum við í sameiningu svara þeirri hugmyndafræði sem Sigmundur Davíð boðar, enda er framtíð íslensks samfélags, jafnréttis og lýðræðis í húfi.

Vestræn siðmenning

Sigmundur Davíð skrifar greinina til varnar vestrænni siðmenningu og heldur því fram að þar hafi allt fólk jafnan rétt. Hann telur mikilvægt að Vesturlönd verjist ofstæki Black Lives Matter hreyfingarinnar sem ætli að brjóta kapítalisma, fjölskylduformið, stjórnkerfið, lögreglu og dómstóla á bak aftur.

Black Lives Matter snýst um réttlæti, virðingu og mótspyrnu gagnvart kúgun. Hún beinir spjótum sínum réttilega að þeim stofnunum samfélagsins sem Sigmundur nefnir. Hreyfingin krefst þess að stjórnkerfið, dómstólar og lögreglan hafi jafnrétti sem sitt skýrasta leiðarljós og að fólk fá notið virðingar óháð litarhafti, kynhneigð, kyni, stétt eða stöðu. Réttlátar kröfur sem almennt ríkir einhugur um.

Þegar Sigmundur ræðst gegn Black Lives Matter er hann því ekki að verja jafnan rétt fólks. Þvert á móti er hann að gera mannréttindabaráttu tortryggilega og boða rasíska, fóbíska og kvenfjandsamlega hugmyndafræði. Slík hugmyndafræði mun eingöngu geta af sér meiri sundrung og djúpstæðara óréttlæti.

Sigmundur er að verja valdakerfi undir formerkjum „vestrænnar siðmenningar“, sem hyglir körlum eins og honum á kostnað jaðarsetts fólks. Hann er að verja harðlínukapítalisma sem beinlínis hvetur til arðráns ríks fólks á fátæku fólki. Hann er að verja þrönga og þvingaða sýn á fjölskylduform sem hefur verið notað sem átylla til kúgunar á fólki sem ekki fellur undir gamaldags skilgreiningar á kynvitund og kynhneigð. Hann er að verja stjórnkerfi, lögreglu og dómstóla sem rannsóknir og sagan sýna að þjóna því miður fyrst og fremst þeim sem njóta forréttinda í samfélaginu. Þetta birtist m.a. í viðhorfum til kynferðisbrotamála, mansals, móttöku flóttafólks og örorkubóta, viðhorfum sem endurspegla ekki viðurkenningu þess óréttlætis og misréttis sem jaðarsett fólk verður fyrir í samfélaginu.

Fórnarlambsvæðing og sundrung

Sigmundur gerir tilraun til að afgreiða Black Lives Matter og aðra mannréttindabaráttu sem sjálfsmyndarstjórnmál og fórnarlambsvæðingu fólks sem sé í innbyrðis keppni um hver hljóti skarðastan hlut frá borði.

Þessar ásakanir hafa tvíþættan tilgang: Að sundra hreyfingu sem berst fyrir réttlæti, virðingu og jafnrétti, og draga úr trúverðugleika baráttunnar meðal fólks sem tilheyrir ekki þeim hópum sem hún snýst um og hefur ekki tekið afstöðu.

Hvorugu markmiðinu nær Sigmundur með skrifum sínum. Hann hefur þvert á móti fengið fjölbreyttan hóp fólks til að sameina krafta sína gegn hægri popúlisma og þannig stuðlað að valdeflingu sem mun vonandi leiða til frekari vitundarvakningar um mikilvægi raunverulegs jafnréttis og réttlætis í samfélaginu.

Gleymum svo ekki

Greinin er skrifuð af hvítum, ríkum, gagnkynhneigðum, valdamiklum, miðaldra karli sem hefur aldrei látið sig baráttu jaðarsettra hópa varða. Hann hefur aldrei upplifað fordóma eða félagslegt mótlæti vegna jaðarsetningar og aldrei þurft að glíma við ótta vegna kerfislægrar hættu á áreitni eða ofbeldi. Greinin er óreiðukenndur samtíningur rakalausra sögusagna sem auðvelt er að afskrifa sem þvælu, af því að í barnslægri einlægni trúum við því flest að skrif á borð við þessi dæmi sig sjálf.

En það er það sem Sigmundur og hans líkar vilja. Með óreiðukenndri og ósanngjarnri framsetninginu er hann að skapa sjálfum sér næði til að sá fræjum ótta og tortryggni. Hann treystir því að fólk telji tilgangslaust að svara, leiðrétta rangfærslur eða mótmæla þeirri hugmyndafræði sem hann boðar. Sömu aðferð hafa popúlískir leiðtogar notað víða um heim.

Gleymum því ekki að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson stofnaði Miðflokkinn utan um sjálfan sig eftir að hafa gengið svo freklega gegn almannahagsmunum að öll heimsbyggðin fylgdist með honum hrökklast úr stóli forsætisráðherra. Hann hefur hvorki verið rannsakaður né dæmdur fyrir aflandsfélög sín og hann hefur ekki þurft að gjalda fyrir alþekkta kvenfyrirlitningu og fötlunarfordóma á Klaustri. Það er beinlínis hættulegt að sitja þegjandi hjá á meðan hann aflar sér og flokki sínum fylgis með því að höfða til lægstu hvata fólks.

Sameinuð, sterk og ábyrg

Allar framfarir sem hafa áunnist í þágu mannréttinda í heiminum eru tilkomnar vegna samtakamáttar fólks sem benti á misrétti og barðist gegn því. Slíkar hreyfingar hafa ávallt mætt mótbyr forréttindakarla á borð við Sigmund og verið úthrópaðar fyrir öfgar og óbilgirni. Slíkum úthrópunum fylgja gjarnan útúrsnúningar þar sem látið er að því liggja að fólkið sem bendir á óréttlætið sé að búa það til, eins og ítrekað kemur fram í grein Sigmundar. Öll þau sem skrifa undir þessa grein geta nefnt dæmi um slíkt, hvort heldur sem baráttan hefur lotið að réttindum kvenna, hinsegin fólks, láglaunafólks, innflytjenda, flóttafólks, svarts og brúns fólks, fatlaðs fólks, feits fólks, fólks með fíknivanda eða fólks sem er jaðarsett að öðru leyti.

Við munum saman standa með og styðja við Black Lives Matter hreyfinguna og taka undir þær kröfur sem hún hefur sett fram. Við munum sömuleiðis leggja okkur fram um að stunda ábyrga viðskiptahætti sem er nokkuð sem téður Sigmundur mætti taka sér til fyrirmyndar. Það er fjarri lagi að kalla slíkt aftökumenningu, enda hafa neytendur val um hvert þeir beina viðskiptum sínum og geta því að sjálfsögðu byggt það val á siðferðilegum álitaefnum og pólítískri hugmyndafræði.

Það er löngu tímabært að uppræta stofnanabundinn og skelfilegan rasisma sem hefur áhrif á daglegt líf alls svarts og brúns fólks í heiminum. Það er okkar einlæga von að kjósendur láti Sigmund Davíð ekki slá ryki í augu sér með hatursfullum skrifum sem hafa það markmið að sundra fólki sem berst gegn kúgun og ofbeldi og safna á sama tíma atkvæðum fyrir sjálfan sig. Við heitum því að gera allt sem í okkar valdi stendur til að berjast gegn öllum þeim kerfum sem kúga, arðræna og jaðarsetja fólk og standa sameinuð vörð um mannréttindi hvers annars. Síðast en ekki síst munum við aldrei sitja þegjandi undir uppgangi fasískra stjórnmálaafla.

Achola Afrikana, Alda Villiljós, Agnieszka Skolowska, Aldrianne Roman Barbour, Alo Silva Muños, Andie Sophia Fontaine, Andrea Helgadóttir, Anna Bentína Hermansen, Anna Lind Vignisdóttir, Arna Þórdís Árnadóttir, Auður Magndís Auðardóttir, Barbara J. Kristvinsson, Birna Gunnarsdóttir, Björg Elínar Sveinbjörnsdóttir, Björg Torfadóttir, Björk Vilhelmsdóttir, Candice Michelle Goddard, Daníel E. Arnarsson, Daníel Örn Arnarsson, Dúa Þorfinnsdóttir, Edda Ýr Garðarsdóttir, Egill Páll Egilsson, Elfa Jónsdóttir, Elísabet Ronaldsdóttir, Francesca Cricelli, Guðrún C. Emilsdóttir, Guðrún Margrét Guðmundsdóttir, Gunnur Vilborg, Guttormur Þorsteinsson, Halldór Auðar Svansson, Halldóra Jónasdóttir, Harpa Njáls, Heiða B. Heiðars, Helga Baldvins Bjargar, Helga Dís Ísfold Álfheiðardóttir Sigurðardóttir, Hildur Guðbjörnsdóttir, Hildur Lilliendahl Viggósdóttir, Hlíf Steinsdóttir, Hugrún Jónsdóttir, Inga Auðbjörg Straumland, Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir, Jeffrey Guariono, Jessica LoMonaco, Jóna Guðbjörg Torfadóttir, Karen Linda Eiríksdóttir, Katrín Harðardóttir, Kinan Kadoni, Kristín Elfa Guðnadóttir, Kristín I. Pálsdóttir, Kristín Vilhjálmsdóttir, Kolbeinn H. Stefánsson, Kristjana Ásbjörnsdóttir, Laufey Ólafsdóttir, Luciano Dutra, Magdalena Kwiatkowska, Magdalena Samsonowicz, Marcos Zotes, Margrét Pétursdóttir, María Hjálmtýsdóttir, María Lilja Þrastardóttir Kemp, Marvi Ablaza Gil, Miriam Petra Ómarsdóttir Award, Pálína Sjöfn Þórarinsdóttir, Óskar Steinn Gestsson, Sæborg Ninja Urðardóttir, Sævar Þór Kristinsson, Sara Stefánsdóttir, Sema Erla Serdar, Sigga Lára Heiðarsdóttir, Sigríður Jónsdóttir, Sóley Tómasdóttir, Sólveig Anna Jónsdóttir, Steinþór Magnússon, Tara Margrét Vilhjálmsdóttir, Wiktoria Joanna Ginter, Þóra Kristín Þórsdóttir, Þorbjörg Þorvaldsdóttir, Þorsteinn V. Einarsson , Þórdís Eva Þorleiksdóttir, Þórdís Helgadóttir og Þórunn Ólafsdóttir .


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: