Boðnarmjöður er stór og öflugur Facebook-hópur þar sem markmiðið er að skiptast á kveðskap með stuðlum og höfuðstöfum; allir sem taka til máls þar eiga að sýna venjulega kurteisi og umræður um annað en skáldskap eiga að fara fram í bundnu máli.
Boðnarmjöður er staður til að kasta fram vísum og þar er ekkert tekið hátíðlega nema stuðlar og höfuðstafir, og kennir þar ýmissa grasa.
Indriði Aðalsteinsson, einn af mörgum félögum hópnum, setti inn texta á Facebook-síðu séra Davíðs Þórs Jónssonar, sem hefur vakið mikla athygli fyrir að vera óhræddur að tjá sig um ýmis samfélagsmál á þann hátt að eftir því er tekið.
Indriði skrifar eftirfarandi á síðu séra Davíðs Þórs:
„Vegna anna við að aka lambám á fjall, var ég seinn fyrir með prestverkabotnana.
Rúmlega 20 botnar skiluðu sér og 75 völdu á milli, og í þriðja sæti var botn Ægirs Breiðfjörð Jóhannssonar með 9 atkvæði. Í öðru sæti var tillegg Kristjáns H. Theódórssonar með 10 atkvæði. Guðmundur B. Guðmundsson fékk svo mestan stuðning, eða 16 atkvæði. Bestu þakkir öll.“
Og þá er ekkert eftir nema að birta kveðskapinn sem þótti bestur og hæfa séra Davíð Þór sérstaklega vel:
Prestar eiga að segja satt
og syngja ekki í lygakór,
en taki allir eigin hatt
ofan fyrir Davíð Þór.