Fréttir

Kvarta yfir „galandi“ ráðherra

By Miðjan

April 11, 2019

„En auðvitað er óþolandi að hæstvirtir ráðherrar geti ekki sýnt betri háttsemi en þetta í umgengni við þingsalinn.“

„Ég geri mér ferð hingað upp í lok þessa dagskrárliðar til að gera alvarlega athugasemd við það að á meðan háttvirtur þingmaður Þorsteinn Víglundsson stóð í ræðustól gerði hæstvirtur félagsmálaráðherra sér ferð, ekki einu sinni heldur tvisvar, hingað inn í sal til að gala fram í, meira af vilja en mætti, vissulega, þegar inntakið er tekið með; gala fram í til að trufla háttvirtan þingmann í ræðu sinni,“ sagði Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, á Alþingi, fyrir nokkrum augnablikum.

„Ég tel mig knúna til að koma hingað upp og ég vona að þetta sé einsdæmi en ekki það sem koma skal, að ráðherrar komi ekki inn til að eiga orðastað við þingmenn í ræðupúlti samkvæmt þingsköpum heldur til að verða sjálfum sér og þingsalnum öllum til minnkunar“, sagði hún.

Hanna Katrín var heldur ekki sátt við forseta þingsins: „Ég geri líka athugasemd við það, hæstvirtur forseti, að ekki skuli hafa verið gerð athugasemd úr þessum háa stóli við þessa framgöngu ráðherra.“

Þorsteinn Víglundsson, þingmaðurinn sem Ásmundur Einar „galaði“ fram í fyrir, tók einnig til máls.

„Mig langar til að taka undir orð háttvirts þingmanns Hönnu Katrínar Friðriksson. Það er auðvitað hvimleitt að hæstvirtir ráðherrar, sem ekki eru þátttakendur í umræðu geri sér ferð fram og til baka um salinn til að grípa fram í fyrir ræðumönnum sem vissulega hafa orðið. Ekki þar fyrir að ég saknaði hæstvirtur ráðherra bara einfaldlega af mælendaskrá í þessari umræðu þar sem hann hefði getað miðlað, af sömu hógværð og hann gerði á göngum sínum um þingsalinn, aðkomu sinni að gerð þessara kjarasamninga.“

„En auðvitað er óþolandi að hæstvirtir ráðherrar geti ekki sýnt betri háttsemi en þetta í umgengni við þingsalinn.“