Ole Anton Bieltvedt, stofnandi og formaður Jarðarvina, skrifar yfirlitsgrein í Mogga dagsins. Þar fer hann yfir þau áföll sem Katrín Jakobsdóttir og flokkur hennar hafa orðið fyrir í stjórnarsamstarfinu við Sjálfstæðisflokk og Framsókn. Samt þráir Katrín ekkert heitar en halda samstarinu áfram. Hér er sá kostur valinn að birta alla greinina:
„Katrín Jakobsdóttur og aðrir forystumenn Vinstri grænna tala nú fjálglega um það að fara aftur í sömu ríkisstjórn, sama ríkisstjórnarsamstarfið, eftir kosningar, ef úrslit leyfa. Hefur Katrín blessuð og þetta annars á ýmsan hátt ágæta fólk virkilega ekkert skilið og ekkert lært síðustu fjögur árin?
Gerir það sér enga grein fyrir því, hvílík hörmungarganga þetta ríkisstjórnarsamstarf hefur verið fyrir Vinstri græna og þeirra stefnu og hvílík sneypuför þetta í raun hefur verið? Eða, heldur það kannski að það geti bara klórað yfir stórfellt árangursleysið, hvað varðar stefnu- og baráttumál Vinstri grænna, og látið eins og uppgjöf og ósigur, nánast yfir alla málefnalínuna, sé í raun sigurganga og flottur árangur?
Hvalveiðar
„Landsfundur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn á Selfossi 23.-25. október 2015, leggst eindregið gegn hvalveiðum við Íslandsstrendur. Við veiðarnar er beitt ómannúðlegum veiðiaðferðum til að viðhalda áhugamáli örfárra útgerðarmanna. Háum upphæðum af opinberu fé hefur verið kastað á glæ til að styrkja þessa áhugamenn um hvalveiðar. Nú er mál að linni.“
M.a. út á ofangreint skýrt stefnu- og baráttumál Vinstri grænna studdu náttúru- og dýraverndunarsinnar flokkinn í kosningunum 2017.
En, ef að líkum lætur, voru Vinstri grænir reknir öfugir til baka með þetta baráttumál sitt í samningunum um stjórnarsamstarfið.
Sjálfstæðismenn og Framsókn gera lítið með það, þó að verið sé að ofsækja, skjóta og sprengja þessi háþróuðu spendýr, sem eru friðuð nánast um allan heim, í tætlur – fullþroskaðir kálfar í móðurkviði meðtaldir – og láta ekki einhverja komma vaða uppi með slíkt.
Vinstri grænir létu væntanlega þessi svik við sjálfa sig og kjósendur sína góð heita, gegn loforði sjálfstæðismanna og Framsóknar um framgang annarra mála, svo sem þjóðgarðs, aukinnar verndar villtra dýra og fugla, svo að ekki sé talað um nýju stjórnarskrána og loftslagsvernd.
Við verðum að vera tilbúin í málamiðlun til að komast í stólana, kann Katrín að hafa hugsað og sagt.
5. júlí 2019 veitti svo ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur umfangsmestu leyfi til hvalveiða, sem sögur fara af, þar sem drepa mátti 2.130 dýr á tímabilinu 2019-2023.
Hugurinn kynni hér hjá sumum að hvarfla til Júdasar Ískaríot.
Þjóðgarður
Í stjórnarsáttmála stendur m.a.: „Stofnaður verði þjóðgarður á miðhálendinu“. Þetta hefðu Vinstri grænir kannski átt að fá fyrir að gefa eftir hvalafriðun. En fengu þau það? NEI. Hér virðast sjálfstæðismenn og Framsókn hafa hlaupizt undan merkjum, beitt undanbrögðum, þegar til kastanna kom.
En Katrín virðist hafa kyngt þeirri niðurstöðu með sínu alkunna brosi á vör. Mikil eftirlátssemi það.
Annað mál er það, að í flestum löndum – alla vega þar sem nokkur menning ríkir og menn eru með alvöru ráðstafanir – er þjóðgarður friðað svæði fyrir öll dýr sem þar búa og allt lífríki svæðisins. En hér átti bara að friða „gras, urð og grjót“; öll dýrin voru undanskilin. Þau hefði mátt veiða og drepa á fullu áfram.
Dýravernd
„Endurskoða þarf löggjöf um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum,“ segir í stjórnarsáttmála.
Kannski var þetta líka hluti af hrossakaupum. En stóðst þetta atriði þá? NEI, aldeilis ekki. Komst aldrei úr nefnd. Sama raunasagan
Stjórnarskráin
„Ríkisstjórnin vill halda áfram heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar…“ segir líka í stjórnarsáttmála. Náðist þetta miklivæga atriði í stjórnarsáttmála þá fram? NEI. Botninn datt úr þessu líka.
Hér fóru sjálfstæðismenn og Framsókn undan í flæmingi, og sat formaður Vinstri grænna/forsætisráðherra uppi með frumvarp, sem „samherjarnir“ vildu ekki sjá eða heyra og varð að engu. Hvílík sneypa.
Loftslagsvernd
Vinstri grænir hafa talað mikið um sinn frábæra árangur í þessari ríkisstjórn í loftslagsvernd. Í huga undirritaðs orkar það ekki tvímælis, að hér vildu Vinstri grænir gera vel, en því miður verður ekki undir það tekið að hér hafi náðst árangur sem hrópa má húrra fyrir.
10. september 2018 boðaði ríkisstjórnin til blaðamannafundar þar sem ekki mættu færri en sjö ráðherrar, og þóttust nú bæði sjálfstæðismenn og Framsókn allt í einu vera orðnir grænir. Víst kunna þeir að hafa verið orðnir það, ef þeir hafa ekki verið það allan tímann, en í annarri merkingu þess orðs.
6,8 milljarða skyldi setja í aðgerðir í loftslagsmálum næstu fimm árin. 1,4 milljarða á ári. Auðvitað var þetta gott mál, allt er betra en ekkert, en það vildi svo til að sömu dagana og ríkisstjórnin blés í sína lúðra með þetta mál voru fréttir í gangi um það að setja ætti 120 milljarða í flugstöð í Keflavík á næstu árum.
Auðvitað var það þetta fínt átak með flugstöðina, gott innlegg í ferðaþjónustuna, en lítið varð úr „stórfelldu átaki“ ríkisstjórnar í loftslagsmálum.“
Það gengur aldeilis eftir sem Drífa Snædal spáði þegar ríkisstjórnin var mynduð.