Guðvarður Jónsson skrifaði grein í Moggann í síðustu viku. Góða grein sem verðskuldar meiri athygli en hún hefur fengið. Í greininni segir meðal annars: „Aldraður sem býr í eigin íbúð hefur ekki rétt á því, að mati Tryggingastofnunar, að nota íbúðina nema í samráði við stofnunina.“
Mannréttindum aldraðra hent út í horn
Guðvarður byrjar greinina svona:
„Verkamenn sem byrjuðu á vinnumarkaði 1940 þurftu að vinna án lífeyrisréttinda til 1970, eða í 30 ár, sem veldur því að þeir fá drjúgan hluta lífeyris í gegnum Tryggingastofnun ríkisins. Þetta veldur því að stofnunin ákveður hvað þessir lífeyrisþegar fá greitt og má segja að mannréttindum þess aldraða sé hent út í horn og eingöngu stuðst við hugdettuákvarðanir starfsmanna Tryggingastofnunar, út frá ákveðnum fyrirmælapunktum frá ráðherrum.“
Refsingar Tryggingastofnunar
„Aldraður sem býr í eigin íbúð hefur ekki rétt á því, að mati Tryggingastofnunar, að nota íbúðina nema í samráði við stofnunina. Eignarrétturinn er raunverulega tekinn af honum og færður yfir á stofnunina án þess að fram hafi farið nein lögmæt aðgerð sem heimili slíkt. Eitt af því sem alveg er bannað þeim gamla er að hafa einhvern í íbúðinni hjá sér, hlýði hann því ekki, er lífeyririnn lækkaður. Hvernig þeir finna þetta út er bara einhver hugdettuákvörðun, því aldrei er rætt við þann aldraða um svona breytingar áður en lækkun er sett á, heldur bara einfaldlega, lífeyririnn lækkaður,“ skrifar Guðvarður.
Tryggingastofnun hirðir matarpeninginn
Næst kemur þetta: „Ef við lítum aðeins á aðferð Tryggingastofnunar þá er hún eitthvað á þessa leið. Ættinginn hjá þeim aldraða lætur hann fá 3.000 kr. uppí matarkaupin og sá gamli kaupir mat fyrir þá báða á 6.000 kr. Þegar Tryggingastofnun kemst að því að ættinginn hafi borgað það sem hann borðaði lækkar stofnunin lífeyri þess gamla sem nemur því er ættinginn borgaði fyrir sig. Þetta veldur því að maturinn fyrir þann gamla kostaði 6.000 kr. en 3.000 kr. fyrir ættingjann. Þetta byggist á hinu nasíska stjórnsýslukerfi stofnunarinnar.“
Guðvarður skrifar: „Það er sorglegt að við Íslendingar beitum svona kúgunaraðferð gegn öldruðum alveg að ástæðulausu, því miðað við hvernig mokað er peningum í yfirstéttina þá er þarna verið að sækja molakaffiaura í vasa aldraðra, sem er þó peningur fyrir þá.“
Á ég að reka konuna út?
Guðvarður undirbjó sig:
„Áður en ég skrifaði þessar línur hringdi ég í Tryggingastofnun til að kanna þeirra álit á málinu. Þegar starfsstúlkan heyrði um hvað samtalið snerist sagði hún með þjósti – þú býrð ekki einn. Aðeins þeir sem búa einir fá fullan lífeyri. Ég spurði hana hvort ég ætti að reka konuna út, hún ætti jafnmikið í íbúðinni og ég. Hún svaraði þessu ekki og sagði ekkert eftir þetta svo ég talaði smástund við sjálfan mig og sagði síðan að ég væri ekki að skamma hana persónulega, heldur tala um kerfið. Hún svaraði þessu ekki heldur og þegar ég kvaddi, sagði hún – bless.
Eitt breytist ekki, menn skulu borga öll opinber gjöld fullu verði þó lífeyririnn sé skertur. Er ekki komin tími fyrir ríkisvaldið að skoða þessi vinnubrögð Tryggingastofnunar? Hvers vegna þurfa aldraðir að búa við svona mannvonsku síðustu æviárin?“