Hrafn Jökulsson birti þessa grein:
Möppudýr hafa stundum gert innrás í minn heim. Ég ræðst aldrei á neinn að fyrra bragði. En ef möppudýr gerir árás — þá er sko veisla!
Haraldur Johannessen fangelsismálastjóri klagaði mig í ríkissaksóknara af því ég var að berjast í þágu félaga minna á Litla-Hrauni á Alþýðublaðsárum mínum á tíunda áratugnum.
Þá hafði Haraldur stytt heimsóknartíma, bannað heimsóknir í klefa, svo nú urðu ástvinir og fangar að njóta samveru í „hrútastíum“ — já, og ég var líka að fjalla um þá staðreynd að þarna voru óharðnaðir piltar — börn — sem gengu í akademíu þeirra sem lengra voru komnir á glæpabrautinni.
Ég sagði að Haraldur væri ekki fangelsismálastjóri heldur „glæpamannaframleiðandi ríkisins“.
Það fór illa í Harald, sem fékk semsagt Hallvarð Einvarðsson ríkissaksóknara til að höfða mál á hendur mér. Ríkissaksóknari hafði aldrei tapað slíku máli, þau ár og aldir sem valdið hafði ofsótt frelsi orðsins á Íslandi.
Það virtist því létta leiðin ljúfa fyrir Harald Johannessen, Hallvarð Einvarðsson & félaga að klófesta Krumma!
Formaður útgáfustjórnar Alþýðublaðsins hafði gert mér ljóst — þegar ákæra Ríkissaksóknara barst — að ég fengi engan stuðning þaðan.
Sem var fínt. Ég var tilbúinn í þennan slag, einsamall og berhentur. Ég fékk Jón Magnússon með mér í vörnina og skemmti mér dátt við að galdra sjálfan Harald Johannessen í vitnastúku.
Ekki var honum skemmt, og ugglaust hefur hann hlakkað til að heyra í hamrinum…
En — púff! — hvað gerðist?
Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari felldi tímamótadóm og sagði það stangast á við jafnræðisákvæði stjórnarskrár að móðgaðir opinberir starfsmenn hefðu ókeypis ákæruþjónustu ríkisins.
Dómarinn endurbirti upprunalegan pistil minn — Ástir í Hrútastíu — í heild, og ágæta umsögn sem fangaði kjarna málsins.
Hæstiréttur staðfesti sögulegan sýknudóm Guðjóns og í kjölfarið var lögum lýðveldisins Íslands breytt þannig að nú voru allir jafnir fyrir lögum.
Lærdómur: Hér var betur heima setið en af stað farið fyrir möppudýrin. Þau töpuðu. Málfrelsið sigraði og Ríkissaksóknari missti mikilvægt vopn gegn frjálsri hugsun á Íslandi.
Fram til sigurs.