Neytendur „Það sem við þurfum að fá er heimild bæjar- eða borgaryfirvalda, til þess að setja upp svona stöðvar og við þurfum að geta keypt eldsneyti fyrir stöðvarnar. Ef við getum þetta tvennt, þá tel ég að við munum geta selt bensín ódýrar en er í boði á markaðnum í dag,“ sagði Jón Björnsson, forstjóri Festar hf., móðurfélags Krónunnar í samtali við Morgunblaðið. Fyrirtæki kannar nú hvort mögulegt sé að reisa bensín- og dísildælur, á lóðum verslana Krónunnar, þar sem eldsneyti verði selt.
„Við hjá Krónunni höfum því sagt sem svo: Hér erum við með þessar lóðir þar sem stórmarkaðir okkar standa. Við stjórnum fasteignunum á þessum lóðum, vegna þess að við eigum flestar byggingarnar þar sem við erum með verslanarekstur.
Það er út frá þessu sem við erum að kanna þessa möguleika,“sagði Jón í samtali við Morgunblaðið.
Hann segir að eigendum og stjórnendum Krónunnar sé fullljóst að alls konar annmarkar muni koma upp á þessari vegferð og þetta gerist ekki á örskotstund.