Krónan ástæða uppsagnar hjá Odda
Framleiðslufyrirtæki hrekjast úr landi vegna krónunnar, segir þingmaður. Nú er svikalogn en við hrekjumst að hengifluginu.
Alþingi „Mig langar að gera að umtalsefni þungan róður íslenskra fyrirtækja. Við sáum eina birtingarmynd þess í fréttum í gær frá fyrirtækinu Odda sem sagði upp 86 manns. Þetta er birtingarmynd þess að samkeppnishæfni íslenskra framleiðslufyrirtækja á undir högg að sækja. Ástæðan blasir við öllum, sterkt gengi íslensku krónunnar,“ sagði Jón Steindór Valdimarsson, þignamður Viðreisnar, á Alþingi fyrir skömmu.
Hannn sagði þá sem standa í fyrirtækjarekstri þurfa að standa sig vel í sínum rekstri, vera með góða vöru og geta selt. „Það er einn óvissuþáttur sem veldur þó miklu meira um gengi mjög margra fyrirtækja en rekstrarsnilli þeirra sem með fyrirtækin fara, það eru sveiflur í gengi krónunnar. Í einu vetfangi er hægt að þurrka út árangur í rekstri og markaðsstarf. Það er löngu tímabært fyrir okkur að við horfumst í augu við þetta stóra vandamál sem við búum við. Við erum að hrekja í burtu framleiðslufyrirtæki, nýsköpunarfyrirtæki. Þetta eru fyrirtækin sem við ætlum að byggja framtíð okkar á.“
„Við verðum að horfast í augu við þetta vandamál,“ sagði Jón Steindór. „Það gengur ekki að halda áfram á þessari braut. Mig langar til að vitna í viðtal við Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, sem orðaði það þannig í viðtali sem birt var í morgun að svikalogn ríkti í hagkerfinu vegna þess hve nærri hengifluginu íslenskir atvinnurekendur væru komnir. Þetta er mjög alvarlegt mál og mér finnst löngu tímabært að við horfumst í augu við það, tökum að ræða í alvöru um að skipta um gjaldmiðil á Íslandi.“