- Advertisement -

Króna á móti krónu skerðing í 5 ár enn

„Stjórnvöld eiga ekki að biðja fátækt fólk á Íslandi að bíða eftir réttlæti.“ „Einn tiltekinn hópur má ekki fara út og afla einnar einustu krónu án þess að það skerði þann lága lífeyri sem honum er skammtaður.“

„Í fjármálaáætlun er sagt að stefnt sé að afnámi krónu á móti krónu skerðingu. En þegar aðgerðir og tímasetningar þeirra eru rýndar sjást þess hvergi merki að ætlunin sé að fara í þetta á næstu fimm árum,“ sagði Helga Vala Helgadóttir, þingkona Samfylkingarinnar, á Alþingi fyrr í dag.

„Því vil ég leyfa mér að vitna í hæstvirtan forsætisráðherra, með leyfi forseta, sem sagði réttilega á þingi sl. haust: „Stjórnvöld eiga ekki að biðja fátækt fólk á Íslandi að bíða eftir réttlæti.“ Hún hefur nú valdið og hvet ég hana til að láta efndir fylgja orðum,“ bætti hún við.

Helga Vala vitnaði til orða Þuríðar Hörpu Sigurðardóttir, formanns Öryrkjabandalagsins, sem var í viðtali í Morgunvaktinni á rás 1 í morgun.

„Það virðist vanta skilning á því að ekki er hægt að skilja þennan þjóðfélagshóp eftir. Við erum látin bíða eina ferðina enn — í góðærinu,“ sagði Þuríður Harpa.

„Formaður Öryrkjabandalagsins bjóst, líkt og við í stjórnarandstöðunni…,“ sagði Helga Vala; „…við því að í hinni nýframlögðu fjármálaáætlun ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur, sem er áætlun til fimm ára, yrði með skýrum hætti tekið á því megna óréttlæti sem króna á móti krónu skerðingin er. Allir flokkar hafa fjallað um þetta kerfisbundna ofbeldi sem beinist gegn einum þjóðfélagshópi. Meira að segja má finna um þetta fjallað í landsfundarályktun Sjálfstæðisflokksins, hvort sem þið trúið því eða ekki. Einn tiltekinn hópur má ekki fara út og afla einnar einustu krónu án þess að það skerði þann lága lífeyri sem honum er skammtaður.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: