Efnahagsmál Töluvert kröftugur hagvöxtur mældist á fyrsta ársfjórðungi þessa árs, en vöxturinn nam 2,9 prósent borið saman við sama fjórðung árið áður. Alls jukust þjóðarútgjöld, sem er samtala einkaneyslu, samneyslu og fjármunamyndunar, um 9,9 prósent en þau hafa ekki vaxið jafn hratt síðan á öðrum ársfjórðungi 2006. Vöxturinn í þjóðarútgjöldum var að miklu leyti borinn uppi af fjármunamyndun en áhrif af einkaneyslu vógu þar einnig töluvert, segir í hagsjá Landsbanka Íslands.
Það sem skýrir töluvert lægri vöxt landsframleiðslu en þjóðarútgjalda var neikvætt framlag utanríkisviðskipta. Útflutningur jókst um 2,7 prósent en innflutningur um 23 prósent en verulegur hluti af auknum innflutningi skýrist af flugvélakaupum.
Einkaneysla jókst um 3,9 prósent sem er í samræmi við kröftugan vöxt á síðustu fjórðungum en meðalvöxtur í einkaneyslu á síðustu fjórum fjórðungum hefur verið 3,8 prósent. Þjóðhagsspá Hagfræðideildar frá því í maí gerir ráð fyrir 4,5 prósent vexti einkaneyslu yfir árið í heild og að sá vöxtur verði drifinn áfram af töluverðum vexti kaupmáttar ásamt auðsáhrifum vegna skuldaniðurgreiðslu ríkisstjórnarinnar á verðtryggðum húsnæðislánum einstaklinga. Þannig er gert ráð fyrir að kaupmáttur aukist um 5,8 prósent á þessu ári sökum verulegra launahækkana en þegar áhrifa þeirra fer síðan að gæta á verðbólgu verði vöxtur kaupmáttar lítill á næstu árum þrátt fyrir umtalsverðar launahækkanir.
Sjá nánar hér.