- Advertisement -

Kristrún talar gegn stöðu stéttarfélaga

Sólveig Anna Jónsdóttir skrifar:

Leitt að sjá formann Samfylkingarinnar tala með svo kæruleysislegum hætti um svo alvarlegt mál. Það sem að hún kallar „Eflingardeilu“ var ein harðasta kjaradeila síðustu áratuga á milli auðstéttarinnar og verkafólks. Þáverandi ríkissáttasemjari tók frá upphafi deilunnar afdráttarlausa afstöðu með Samtökunum atvinnulífsins. Hann gerði ekkert til að miðla málum, leita sátta eða tryggja að málflutningur samninganefndar Eflingar næði eyrum fulltrúa SA. Þegar hann lagði fram miðlunartillögu sína braut hann með framferði sínu lög nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur (grein nr. 27). Að lokum fóru mál þannig að Efling vann fullnaðarsigur fyrir Landsrétti í febrúar 2023 en í svokallaðri „Eflingardeilu“ hafði þáverandi ríkissáttasemjari hótað aðför að félaginu með aðstoð lögreglu og Sýslumanns til að sækja félagatal (kjörskrá) svo að hægt væri að setja af stað atkvæðagreiðslu um hina ólöglegu miðlunartillögu.

Formaður Samfylkingarinnar segir flokk sinn opinn fyrir því að ríkissáttasemjari hafi heimildir til þess að fá afhent félagatal „þegar kemur til miðlunartillagna“, að það sé „mjög skynsamlegt að skoða“. Þetta er viðbragð hennar við há-pólitísku og grafalvarlegu máli sem varð til þess að ríkissáttasemjari, einn hæst setti embættismaður lýðveldisins, sagði af sér vegna þeirrar augljósu staðreyndar að ekki nokkur manneskja innan hreyfingar vinnandi fólks bar lengur til hans nokkuð traust. Það getur varla verið að ég sé eini formaðurinn sem bregður töluvert við að sjá formann þess flokks sem mælist stærstur í skoðanakönnunum ræða málið af léttúð. Ég velti því fyrir mér hvort að Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambandsins og fyrrverandi forseti Alþýðusambands, sem er í framboði fyrir Samfylkinguna, sé jafn slakur og formaðurinn. Og hvort að hann telji það skynsamleg viðbrögð við aðför embættismanns að einum mikilvægustu réttindum vinnuaflsins, stjórnarskrárvörðum lýðræðislegu grundvallarrétti, að breyta einfaldlega lögunum sem embætismaðurinn braut, honum í hag.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Að ríkissáttasemjari hafi heimild til að sækja félagatal til að knýja á um atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu grefur undan rétti verkafólks til að gera sjálft kjarasamning. Að gera kjarasamning eru ein mikilvægustu lýðræðislegu réttindi vinnuaflsins. Hugmyndin um auknar heimildir ríkissáttasemjara er að verkafólk skuli lúta valdboði, skuli beyja sig undir einhliða inngrip opinbers valds. Meginmarkmið slíkrar viðbótar við heimildir ríkissáttasemjara er það að koma í veg fyrir verkföll vinnandi fólks. Ég trúi ekki öðru en að allir skilji það. Og vegna þess finnst mér kæruleysi og léttúð einstaklega óviðeigandi.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: