Hinn ötuli kaupmaður, Ragnar Sverrisson í JMJ á Akureyri, sendir Kristrúnu Frostadóttur, formanni Samfylkingarinnar kalda sendingu. Ragnar er félagi í Samfylkingunni og baráttumaður fyrir upptöku evru og aðildar að Evrópusambandinu. Hann er ósáttur við að Samfylkingin hafi sett þessi mál í geymslu. Ragnar þykir sem ekki sé gott að ræða þessi mál. Látið sem umræðan geti klofið þjóðina.
„Nú hefur okkar ágæti formaður í Samfylkingunni klappað þennan sama stein og telur ekki tímabært að ræða upptöku stærri gjaldmiðils vegna þess að það myndi kljúfa þjóðina. Gallinn við þessa kenningu er sá að þjóðin er nú þegar klofin í herðar niður í afstöðunni til þessa málefnis og því engu að tapa,“ skrifar Ragnar í nýrri. Moggagrein.
„Annars vegar eru fjölbreytilegir sérréttindahópar sem hafa komið sér vel fyrir í kerfinu ásamt þeim sem reka fyrirtæki í öðrum og öflugri gjaldmiðli og tilheyra ekki nema að litlum hluta hinu íslenska efnahagssvæði. Hins vegar eru svo þeir sem reka minni og meðalstór fyrirtæki auk einstaklinga á skuldaklafa íslenskra banka. Þetta ástand lýsir þverklofinni þjóð sem verður því aðeins ein samstæð heild að sömu leikreglur gildi fyrir alla.
Þess vegna hefur aldrei verið nauðsynlegra en nú að ræða alvarlega um þá möguleika sem felast í því að taka upp evruna og ganga að fullu í ESB. Margir hafa bent á að við náum ekki nokkrum tökum á efnahagsstjórn þessa lands með minnsta gjaldmiðil í heimi sem flýtur eins og korktappi um úthafið og tryggir ekki þann stöðugleika sem nágrannaþjóðir okkar innan ESB búa við. Þetta hafa vaskir verkalýðsforingjar nú viðurkennt og kalla fyrir hönd sinna umbjóðenda eftir alvöruumræðu um kosti þess að tengjast stærri gjaldmiðli. Bragð er að þá barnið finnur.
Það kæmi því ekki á óvart ef verkalýðsfélögin tækju þetta brýna málefni upp við gerð næstu kjarasamninga. Þar með opnuðust nýir möguleikar til að skapa stöðugleika í þjóðfélaginu og forða þjóðinni frá því að klofna endanlega í tvo ólíka hópa sem eltu grátt silfur næstu ár og áratugi.
Því er brýn nauðsyn að fá nú þegar hlutlaust mat virtra sérfræðinga á því hvaða áhrif það hefði fyrir íslenskan almenning og rekstur fyrirtækja ef evran yrði tekin upp og landið gengi að fullu í ESB.“