Fiskistofustjóri segist enga skoðun hafa á inngripi ráðherrans.
Ekkert verður af veiðistöðvun Kleifarbergs, togara Brims, eða Útgerðarfélags Reykjavíkur eins og fyrirtækið heitir nú, eftir að Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra greip inn í og frestaði veiðibanninu sem Fiskistofa hafði ákveðið.
Ráðherrann tók völdin af Fiskistofu. Hann frestaði veiðistöðvuninni til 15. apríl í vor.
Í Fréttablaðinu í dag er fjallað um málið, þar segir:
„Svipting á veiðileyfi er ekki tekin út í loftið og er byggð á gögnum málsins,“ segir Eyþór Björnsson, forstjóri Fiskistofu. „Ákvörðun um frestun réttaráhrifa veiðileyfasviptingarinnar er ákvörðun ráðuneytisins og ég hef enga sérstaka skoðun á henni.“
Ekki er öðru trúandi en fiskistofustjóri hafi skoðun á inngripi ráðherrans. Ráðherrann barði bylmingsfast á fingur hans.
Málið snýst um brottkast, eða hið minnsta meint brottkast:
„Eins og atvikum er lýst verður að ganga út frá því að um ásetningsbrot hafi verið að ræða,“ segir í ákvörðuninni og segja þeir miklu magni af fiski hafa verið hent með vitund og eftir fyrirmælum skipstjóra, segir í Fréttablaðinu.