Kristján Þór skipi ekki ráðuneytisstjóra
Ragnar Önundarson skrifar:
Fyrir liggur að Kristján Þór Júlíusson er að hætta í pólitík. Embætti ráðuneytisstjóra í hans ráðuneyti er laust til umsóknar. Meðal umsækjenda er mikill ágætismaður og öflugur lögfræðingur, Kolbeinn Árnason, sem var framkvæmdastjóri LÍU og síðan SFS á árunum 2013-2016. Hann kom nýlega inn í ráðuneytið sem skrifstofustjóri matvælaöryggis- og fiskeldis. Kristján Þór ætlar að ráða í stöðuna, þrátt fyrir almenna andúð á hagsmunatengslum ráðamanna.
Með hliðsjón af umræðunni þessa dagana væri skynsamlegt að fresta ákvörðun um þessa ráðningu og fela næsta sjávarútvegsráðherra að ganga frá henni. Kristján Þór hefur í raun takmarkað umboð, hann er eins og ráðherra í starfsstjórn, því hann ætlar ekki að leggja verk sín í dóm kjósenda. Það yrði alvarlegur skellur fyrir flokk hans ef hann færi gegn almenningsálitinu. Ef ráðningunni yrði hins vegar frestað gæfist flokkunum tækifæri til að kynna kjósendum viðhorf sín og leggja þau fram fyrir kosningar. Það mundi beina kastljósinu að viðhorfi flokkanna til hagsmunatengdra ráðamanna.