- Advertisement -

Kristján Þór hunsar Alþingi – ítrekað

Það er ekki hægt að leyfa framkvæmdarvaldinu að komast upp með það.

„Mig langar að upplýsa þjóðina og forseta þingsins um að í rúma tvo mánuði hef ég ásamt fjórðungi nefndar, sem getur óskað eftir því að rannsaka einhver ákveðin mál og rannsaka hvernig ráðherrar fara með vald sitt, eins og 39. gr. stjórnarskrárinnar gefur okkur heimild til, óskað eftir því, samkvæmt þingsköpum og stjórnarskrá, að ráðherra komi fyrir nefndina eða sendi ráðuneytið varðandi þrjú mál. Þetta er hægt að gera á fjarfundum,“ sagði Jón Þór Ólafsson Pírati á  Alþingi.

„Eitt málanna er kvótaþakið. Ég spyr: Hvernig kemst fyrirtæki upp með það að vera með meira en 12% af kvótanum sem lög kveða á um? Í öðru lagi Covid-mál ráðherra. Hann fór af stað með sín eigin Covid-mál sem hann getur alveg gert en hann hefur algjörlega vanrækt að upplýsa okkur um það í atvinnuveganefnd þannig að við getum haft eftirlit með honum og því sem hann er að gera. Það er okkar stjórnarskrárbundna skylda. Í þriðja lagi er spurning hvort fiskeldislögin brjóta fjögur ákvæði EES-sáttmálans, ef svo er. Það hefur komið fram og hefur verið dæmt,“ sagði hann.

„Ráðherra verður að mæta fyrir atvinnuveganefnd. Þetta er bundið í stjórnarskrá en hann hefur vanrækt það ítrekað. Svörin sem ég fæ frá formanni nefndarinnar er að það sé verið að skoða þetta í ráðuneytinu. Það er ekki hægt að leyfa framkvæmdarvaldinu að komast upp með það, sem við höfum tekið eftir trekk í trekk í faraldri, að svara ekki. Við verðum að geta haft stjórnarskrárbundið eftirlit með því. Nú er þetta skýrt komið til forseta og þjóðarinnar.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

-sme


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: