- Advertisement -

Kristján Þór gengur erinda hvalfangarans

„Æ sér gjöf til gjalda,“ segir málshátturinn. Það sannast nú.

Hér á Miðjunni var í gær látið að því liggja að Kristján Þór sjávarútvegsráðherra væri prakkari. Meðal annars fyrir að leyfa hvalveiðar þvert á vilja flokks forsætisráðherra. Fréttablaðið upplýsir í dag að Kristján Þór gekk erinda auðkýfings. Kristján Þór er ekki prakkari. Kannski er hann bara lydda.

Nafni hans, Kristján Loftsson hvalfangari, hefur hvergi sparað peninga til Sjálfstæðisflokksins. „Æ sér gjöf til gjalda,“ segir málshátturinn. Það sannast heldur betur í dag.

Kristján Þór Júlíusson hefur orðið uppvís að láta stjórnast af hagsmunum stórgreiðenda til Sjálfstæðisflokksins. Meira að segja þvert á vilja forsætisráðherra og flokks hennar. Kristján Þór metur mikils hagsmuni nafna síns í Hvalnum.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Hér má lesa hluta tölvupóstsins, eins og hann er birtur í Fréttablaðinu.

„Sæll Kristján Þór, Mér þykir leitt að þurfa að hvabba [sic] á þér vegna eftirfarandi.“ Svo hefst bréf forstjórans til ráðherra málaflokksins. Kristján Loftsson benti nafna sínum á í bréfinu að það þyrfti að laga reglugerðina að hans mati. „Eins og þetta er í pottinn búið tel ég vonlaust að sækja um vinnsluleyfi fyrir komandi vertíð með reglugerðina óbreytta. Vísa ég þar sérstaklega til 10 [sic] gr. Reglugerðarinnar.“ 

Fyrr í dag birtist hér á Miðjunni frétt þar sem kom fram vilji þeirra Davíðs Oddssonar og Sigurðar Inga Jóhannssonar um að auka þurfi vald ráðherra. Sú skoðun og gerðir Kristjáns Þórs smellpassa í þá venju sem hér er og vilji er til að styrkja enn frekar.

Þessi augljósa hagsmunaganga ráðherrans mun ekki hafa nein áhrif á stöðu hans í stjórnmálum. Slíkt tíðkast ekki á Íslandi.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: