Fréttir

Krísa í Kaplakrika – Jón Erling og Höddi Magg í hár saman: „Félagið sekkur dýpra og dýpra í hyldýpið“

By Ritstjórn

June 18, 2022

Gömlu liðsfélagarnir úr FH frá því á síðustu öld, Jón Erling Ragnarsson og Hörður Magnússon, báðir miklir markaskorarar, eru afar ósammála um hvað eigi að gera næst hjá FH, en félagið er nýbúið að reka þjálfara sinn, Ólaf Jóhannesson, og eins og staðan er núna er gamla stórveldið komið í bullandi fallhættu.

Ólafur Jóhannesson.

„Hef fylgst með úr mikilli fjarlægð en get varla orða bundist lengur. Enn ein þjálfaraskiptin hjá FH. Þarf ekki stjórn Knattspyrnudeildar að fara í alvöru naflaskoðun? Athuga sinn gang. Það var gerð hallarbylting í Krikanum haustið 1987. Líklega þarf aðra slíka núna; þetta getur ekki staðið.

Hörður Magnússon varð þrisvar sinnum markakóngur efstu deildar – árin 1989, 1990 og 1991.

Réttast væri að stjórn knattspyrnudeildar FH segði af sér hið snarasta og bráðabirgðastjórn tæki við sem myndi endurskoða ákvörðun um brottvikningu þjálfarans.“

Jón Erling Ragnarsson var mikill markaskorari – bæði með FH og Fram – var lykilleikmaður í frábæru Fram-liði sem varð Íslandsmeistari árið 1990. Fagnaði einnig mörgum titlum sem handboltamaður hjá FH.

Við þessi orð Harðar er Jón Erling Ragnarsson, sem reyndar var alls ekki síðri sem handboltamaður en fótboltamaður, ekki sáttur við og lætur í sér heyra:

„Þetta innlegg er að mínu fyrir neðan allar hellur Hörður Magnússon! Fyrir það fyrsta þá tekur enginn svona ákvarðanir nema að vel ígrunduðu máli og með brotið hjarta í tilfellum eins með FH goðsagnir eins og Loga Ólafs og Óla Jó! Allir hafa rétt á sinni skoðun, en þegar maður í þinni stöðu bæði fagmaður og sem FH-ingur kemur með svona alvarlegar aðdróttanir þá er lágmarkskrafa að rökstyðja mál sitt almennilega!

Ekki bara góður í fótbolta og handbolta heldur líka í golfi.

Hvað er það sem knattspyrnudeild FH og augljóslega aðallega meistaraflokksráð félagsins átti að gera öðruvísi og réttlætir hallarbyltingu – þegar haft er í huga atburðarásin í þjálfaramálum, staðan í deildinni á þessum tíma í ár og í fyrra, leikmannahópurinn og þeir leikmenn sem hafa komið til félagsins! Ekki senda á mig persónulega, svaraðu hér þannig að allir FH-ingar sjái!“

Hörður svarar sínum gamla félaga, og heldur fast í sína skoðun um að gera þurfi hallarbyltingu í Kaplakrika; koma núverandi stjórn knattspyrnudeildar FH frá:

„Hvað er fyrir neðan allar hellur? Að ég hafi skoðun á gangi mála? Þið hafið lítið gert annað en að reka eða ráða þjálfara undanfarin ár. Þjálfara sem hafa margsannað sig í íslenskum fótbolta. Leikmannakaup hafa verið misheppnuð en rándýr. Félagið sekkur dýpra og dýpra í hyldýpið. Þið verðið bara að taka ábyrgð á þessari stöðu og hleypa öðrum að.“

Eiður Smári Guðjohnsen er nú talinn einna líklegastur til að taka við þjálfun FH.

Umræðan er í fullum gangi um ástand mála hjá FH, og ýmsar skoðanir á lofti. Flestir virðast þó vera á því að einkennilegt hafi verið að reka Ólaf núna en ekki þegar landsleikjahléið byrjaði nýverið; Ólafur var rekinn eftir fyrsta leik eftir landsleikjahlé, og nú eru FH-ingar þjálfaralausir. Þeir sem helst hafa verið nefndir til sögunnar sem arftakar Ólafs eru Heimir Guðjónsson, Eiður Smári Guðjohnsen, Davíð Þór Viðarsson og Heimir Hallgrímsson. Eins og staðan er nú er talið líklegast að Eiður Smári sé á leið í Kaplakrika – en hann hefur sést þar dagana á eftir brottrekstur Ólafs.