„Krefjist VG þingrofs og nýrra kosninga vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn gætir þjóðarhags þarf engu að kvíða“
Stjórnmál
Einar S. Hálfdánarson, félagi í Sjálfstæðisflokki, er langþreyttur á eigin flokki. Hann hefur þungar áhyggjur af komiu flóttafólks til Íslands. Einar skrifar grein í Mogga dagsins. Hér fara valdir kaflar úr greininni.
„Upphafið má raunar rekja til rándýrra mistaka í tíð ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Mistaka sem ég varaði mjög við að gerð yrðu í ýtarlega rökstuddri grein í Morgunblaðinu árið 2016. En þau stórfelldu mistök firra Sjálfstæðisflokkinn ekki ábyrgð. Aðrir flokkar mega við slíku, en þjóðin má ekki við að Sjálfstæðisflokkurinn taki þar þátt. Þegar upp verður staðið munu þessi mistök Sjálfstæðisflokksins verða talin langverstu mistök flokksins í næstum aldar sögu flokks sem var lengstum brjóstvörn lýðveldisins. – Og er þó af ýmsu að taka hin síðustu ár.“
Áfram með skrif Einars. Hér er djúpt skot á Bjarna Benediktsson formann án þess að hann sé nefndur á nafn:
„Í mörg ár hefur Sjálfstæðisflokkurinn sem sé reynt að bæta fyrir mistök sín (og annarra). Þá tekur við endurtekið efni. Á ensku nefnist það „song and dance routine“. Þeir sem ekki þekkja geta gúgglað meininguna. Og aftur, og aftur, og aftur, kokgleypir flokkurinn minn. Ferlið er á þessa leið: Málið velkist lengi í ríkisstjórn þar til það sem langmestu máli skiptir er ekki lengur hluti lagafrumvarps. Næst leyfir þingflokkur VG Sjálfstæðisflokknum náðarsamlegast að leggja frumvarpið fyrir nefnd, en nú eru settir nýir fyrirvarar (sbr. þingræður VG 4. mars). Þá taka við nefndarstörf þar sem VG og píratar ráða ráðum sínum lengi, lengi, og passa upp á að ekkert breytist í raun. Ef frumvarpið er gersamlega bitlaust, líkt og var á síðasta þingi, nær frumvarpið loks í gegn. Annars dagar það uppi fyrir okkar eigið máttleysi.“
Einar greinarhöfundur er faðir Diljár Mistar þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Snjó eða klaka var hent í bíl hennar, eins og kunnugt er.
„Svonefndir hælisleitendur ráðast að yfirvöldum með hótunum. Löggæslan lætur brotin viðgangast. Ráðist er að þinginu og einstökum þingmönnum. – Allt þetta hefur valdið þjóðarvakningu. Höfundarnir, VG, eru búnir að vera. Nema hvað?“
Að lokum þetta:
„Spurningin er þessi: Ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að ganga fyrir björg með VG? Þangað ætla ég ekki með flokknum sem ég gekk í 15 ára gamall og hef starfað í æ síðan. – Nú þarf að skerpa aftur á frumvarpi til útlendingalaga. Fram að samþykki laganna þarf Sjálfstæðisflokkurinn að beita framkvæmdarvaldinu sem honum hefur verið trúað fyrir til að stöðva hælisleitendaflauminn um sinn. Til þess hefur hann svo sannarlega tækin. Ég veit fyrir víst að mikill meirihluti þingsins styður róttækar breytingar; ég á nógu mörg samtöl til að vita það. Krefjist VG þingrofs og nýrra kosninga vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn gætir þjóðarhags þarf engu að kvíða. Í slíkum kosningum þurrkast VG út. Sætti Sjálfstæðisflokkurinn sig við, stórt séð, óbreytt ástand; þá mun Sjálfstæðisflokkurinn glata stöðu sinni að eilífu. – Spyrjið bara danska Íhaldsflokkinn.“
Ófriður innan flokks og ríkisstjórnarinnar er að verða öllum ljós.