- Advertisement -

Krafa um geðþóttavald

Jón Steinar Gunnlaugsson skrifar:

Lög um útlendinga eru frá árinu 2016. Þar er kveðið á um málsmeðferð þegar útlendingar óska eftir að fá vist á Íslandi. Svo er að sjá sem afgreiðsla mála hafi frestast vegna farsóttarinnar, sem gengið hefur yfir síðastliðin tvö ár. Nú er sá tími liðinn og eðlilegt ástand þessara mála hefur komist á.

Samkvæmt lögunum afgreiða sérstakar stjórnsýslustofnanir beiðnir útlendinga um landvist og búsetu hér. Þar fer kærunefnd útlendingamála með vald á áfrýjunarstigi. Henni ber auðvitað að starfa eftir íslenskum lögum. Nú hefur hún synjað allmörgum útlendingum um leyfi til að setjast hér að.

Þá er eins og stór hluti þjóðarinnar fari á límingunum. Ráðist er á dómsmálaráðherrann sem ekki hefur tekið þessar umdeildu ákvarðanir, heldur kveðst aðeins vilja fara að lögum landsins og framfylgja þeim ákvörðunum sem rétt stjórnvöld hafa tekið. Hann sætir nú hreinum ofsóknum. Þar ganga m.a. fast fram alþingismenn, sem sumir hverjir tóku þátt í lagasetningunni. Biskup Íslands og a.m.k. einn hempuklæddur orðafeykir taka þátt í árásununum.

Krafan virðist vera sú að því aðeins beri að fara eftir lögum að mönnum líki efni þeirra í einstökum málum. Grunnreglum, t.d. um þrískiptingu ríkisvaldsins, skal vikið til hliðar fyrir geðþóttann. Alþingismenn ættu að hrósa ráðherra fyrir að virða lögin í stjórnsýslu sinni. Þeir geta svo á vettvangi löggjafans, ef þeir vilja, flutt frumvörp um breytingar á lögunum sem ráðherra hefur heitið að fara eftir.

Það er stundum átakanlegt að fylgjast með menningarstiginu sem birtist í almennum umræðum á Íslandi um málefni þjóðfélagsins.

Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: