„Þetta er grafalvarleg staða Sjálfstæðisflokksins og sá sem ber höfuðábyrgð á þessu slaka fylgi er formaður flokksins, Bjarni Benediktsson, sem hefur verið formaður hans síðan 2009 að ég held,“ skrifar Jóhann L. Helgason í Mogga dagsins.
„Að smám saman týna svona trausti kjósenda jafnt og þétt hefur aðeins eina skýringu: Forysta flokksins hefur brugðist og það þýðir að það er komin krafa um að formaðurinn yfirgefi sviðið; ekki bara þessa ríkisstjórn heldur einnig þingsætið.
Það segir sig sjálft að almenningur vill sjá heiðarleika í samskiptum ríkisins og mannsins á götunni, skattgreiðandans. Þegar traustið er farið verður ekki aftur snúið heldur verður að breyta til, því fyrr því betra.
Tapað fylgi er ekki létt að endurheimta, það þarf fyrst og fremst heiðarleika og pólitískt innsæi, sem ekki er að finna á borði Sjálfstæðisflokksins núna.
„Eru menn nokkuð búnir að gleyma Borgunarhneykslinu 2014 þar sem hlutur Landsbankans í Borgun var seldur í lokuðu ferli, sem var og er óheimillt, þar sem verðmæti Borgunar var viljandi vanreiknað, þar sem kaupendur voru handvaldir, og þar sem tveir kaupendanna voru náskyldir þáverandi fjármálaráðherra, Bjarna Benediktssyni; faðir hans Benedikt Sveinsson og föðurbróðir, Einar Sveinsson.“
Ef Bjarna Benidiktssyni þykir eitthvað vænt um Sjálfstæðisflokkinn og fylgjendur hans, bæði núverandi og fyrrverandi, og gefur ekki skít í fylgishrunið þá ætti hann að sjá sóma sinn í að yfirgefa bæði ríkisstjórnina og þingsætið og það strax.
Sjálfstæðisflokkurinn á sem betur fer ágætt úrval af dugnaðarfólki til að taka við.“
Grein Jóhanns er lengri.