- Advertisement -

Krabbameinssjúkur fær ekki, en fá bílaleigur?

Leiðari Eitt sinn voru rónar í Reykjavík að snapa fyrir bokku, bokku sem þá kostaði 200 krónur. Þeim hafði gengið nokkuð vel og tóku að telja peninga. Þeir voru með 198 krónur. Enn vantaði tvær krónur. Vonsviknir horfðu þeir hver á annan. Þar til einn þeirra sagði ákveðinni röddu: „Teljum aftur.“

Stjórnendur og eigendur bílaleigufyrirtækja virðast hafa fallið í sama farið og rónarnir forðum. Að byggja hugsanir sínar á vonlausum væntingum. Þeir keyptu alltof marga bílaleigubíla. Margir þeirra hafa staðið ónotaðir frá því bílaleigurnar fengu þá afhenta. Áætlanir þeirra hafa reynst kolrangar og þeir horfa fram á bölvuð vandræði.

Og hvaða gera menn þá? Banka upp á hjá Benedikt fjármálaráðherra og biðjast vægðar undan sköttum og gjöldum. Óvíst er hvernig betli þeirra verður tekið.

Nýverið leitaði krabbameinssjúkur maður eftir skattaafslætti vegna þess hversu dýrt er að vera með krabbamein á Íslandi. Yfirvaldið sagði nei. Það var mat hins kalda kerfis að maðurinn væri ekkert of góður til að borga sitt krabbamein og það væri ekki ríkisins að rétta honum hjálparhönd. Kerfið sagði honum svo sem ekki að éta það sem úti frýs. Nánast.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Nú er að bíða og sjá. Fá gráðugir eigendur bílaleigukompanía skattaafslátt, afslátt sem krabbameinssjúkir fá ekki? Möguleikar athafnamannanna er meiri en þeirra veiku.

 

Sigurjón M. Egilsson/Kristborg Hákonardóttir.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: