- Advertisement -

Köttum skuli breytt í hunda

Guðmundur Andri Thorsson skrifar:

Guðmundur Andri Thorsson:
Ótti og andúð á dýrum er sérstakt sálarástand sem eflaust á sitt fræðiheiti og brýst oft fram í svona hugmyndum um „lausagöngu katta“ og starra sem „meindýr“ að ógleymdri bábiljunni um að „hundar eigi ekki heima í þéttbýli“.

Hugmyndin um „lausagöngu katta“ er mjög einkennileg. Eins gætum við talað um lausaflug gæsa (sem svo sannarlega skilja eftir sig skít út um allt). Ætlast virðist til þess að kettir séu ekki á ferli einir utanhúss, vegna þess gríðarlega skaða sem þeir valda, til dæmis á görðum fólks, með veiðum, eða öðru; þeir skuli vera í taumi með eiganda sínum. Eiginlega finnst mér það jafngilda opinberri tilskipun um að köttum skuli breyta í hunda.

Samband manns og kattar hefur þróast gegnum árþúsundin en það er þó enn svo að kötturinn fer sinna eigin ferða, á sér sína rútínu, fer um ákveðinn radíus og það er grimmilegt inngrip sem stríðir gegn eðli kattarins að setja hann í taum – og ekki nægileg rök að einhverjum sé illa við ketti.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ótti og andúð á dýrum er sérstakt sálarástand sem eflaust á sitt fræðiheiti og brýst oft fram í svona hugmyndum um „lausagöngu katta“ og starra sem „meindýr“ að ógleymdri bábiljunni um að „hundar eigi ekki heima í þéttbýli“. Dýrafóbía er áreiðanlega vont ásigkomulag en kallar á sálfræðimeðferð frekar en að viðkomandi einstaklingar eigi að hafa neitunarvald um dýrahald annarra, til dæmis í fjölbýlishúsum. Mikil ósköp: sumir kettir veiða stundum fugla (hægt að hengja bjöllu um hálsinn á þeim) og sumir kettir skíta stundum þar sem þeir ættu ekki að gera það og róta upp beðum og þeir valda líka ofnæmi hjá sumu fólki – en þeir kúra líka hjá manni malandi, eru okkur félagsskapur, þroska með okkur umönnunarhvötina, eru styðjandi þegar við erum lasin eða leið.

Kettir og hundar fylgja mönnunum, eiga heima í bæjum og borgum og sveitum – alls staðar þar sem mennirnir eru saman komnir. Þeim fylgir alls konar vesen, fyrir utan ánægjuna sem þeir veita okkur – en það vesen verðum við einfaldlega að takast á við hvert og eitt.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: