Ljósmynd: Etienne Girardet.

Stjórnmál

Kostaði fimm þúsund á mann

By Miðjan

January 05, 2019

Íslensk hjón fóru í vikulanga ferð um norðurland í sumar, þeim til ánægjuauka. Heimsóttu bæði nýja og kunnuglega áfangastaði og nutu til hins ítrasta. Það sem mest kom á óvart var kostnaður á vinsælum ferðamannastöðum.

Eiginmaðurinn skrifar: „Við hittum son okkar og sambýliskonu við vinsælan baðstað á Norðausturlandi og buðum þeim með okkur. Aðgangurinn kostaði samtals 20 þúsund og aðstaðan í útiklefum var ekki betri en svo að þar var aðeins hægt að læsa þriðja hverjum fataskáp og gólfin rennandi blaut þannig að ekki var hægt að klæða sig í sokka og skó fyrr en komið var út í afgreiðslu.“

Hann skrifar áfram: „Við stoppuðum á vinsælum ferðamannastað og skoðuðum foss, en þurftum að komast á salerni og kunnum því ekki við annað en að kaupa kaffibolla í staðinn. Tveir kaffibollar kostuðu samtals ellefu hundruð krónur. Þegar kom síðan að stöðum utan alfaraleiðar varð verðlagningin hins vegar talsvert lægri á öllu.

Í heimsku minni velti ég fyrir mér hvort kostnaðurinn við að þjóna ferðafólki aukist svona hrikalega með auknum ferðamannastraumi eða hvort einfaldlega ferðafólk er almennt hætt að tíma því að kaupa vörur og þjónustu vegna hárrar álagningar og því minna innstreymi tekna?“