Logi Einarsson gerði áhrif Kórónuveirunnar að umtalsefni á Alþingi. Hann hefur áhyggjur að áhrifum sem sóttkví getur haft á rekstur fyrirtækja, einkum lítilla og meðalstórra.
„Ég hef áhyggjur af þeim, sérstaklega í ljósi vaxandi atvinnuleysis. Lítil fyrirtæki með átta starfsmenn missa t.d. tvo heila mannmánuði ef starfsmenn þurfa að fara í sóttkví. Jafnvel þótt þau þurfi ekki að bera launakostnaðinn geta fyrirtæki orðið fyrir verulegu verðmætatapi vegna skertrar framleiðslu. Þetta gerist á sama tíma og hagkerfið okkar er að kólna allhressilega. Því vil ég spyrja hæstvirtan ráðherra hvort ríkisstjórnin hafi velt þessum hlut fyrir sér og hvort hún hafi rætt mögulegar aðgerðir og ívilnanir fyrir slík fyrirtæki sem verða fyrir mestum áhrifum.“
Sigurður Ingi Jóhannsson sagði:
„Ég tek undir áhyggjur háttvirts þingmanns af fyrirtækjum þar sem starfsmenn lenda hugsanlega í sóttkví eða bara hitt að neyslan í samfélaginu fari að dragast það mikið saman að við förum að sjá mjög vaxandi atvinnuleysi. Hér er efnahagslegur og pólitískur stöðugleiki sem gerir það að verkum að við erum ekki í þessum hefðbundnu efnahagslegu dýfum sem við höfum oft séð áður, þ.e. gengið hrynur og verðbólgan rýkur upp. En núna er það atvinnuleysi sem vex. Ég vil ekki standa hér og halda því fram að ég sé með allar lausnir á þessum málum. Við erum að vinna úr þeim. Við erum að skoða það að auðvitað geta sumir í sumum fyrirtækjum starfað heima, jafnvel þó að þeir séu í sóttkví, augljóslega ekki þeir sem eru veikir, eru komnir inn í ákveðið umhverfi þar. Við höfum átt samtöl við aðila vinnumarkaðarins og ég held að það þurfi að gera það enn frekar á næstunni.“