Ágúst Ólafur Ágústsson talaði um kórónaveiruna á Alþingi í dag. Hann sagði:
„Það er ekki hægt að segja að árið 2020 hafi byrjað vel. Yfir okkur dynur hvert óveðrið á fætur öðru, hörmuleg slys eiga sér stað, snjóflóð falla, Ástralía brennur, spennan eykst í miðausturlöndum, hugsanlegt eldgos á Reykjanesi og nú síðast líklegur heimsfaraldur vegna kórónaveirunnar. Það er hið síðastnefnda sem ég tók upp á Alþingi rétt áðan og beindi ég fyrirspurn til heilbrigðisráðherra.
Nú berast ógnvænlegar fréttir um útbreiðslu kórónaveirunnar og er ekki lengur talað um hvort heldur hvenær hún berst til Íslands. Og því skiptir máli að fara yfir þær aðgerðir sem þörf er á að grípa til vegna veirunnar.
Hvað er verið að gera og hvað þarf að gera? Hvernig erum við í stakk búinn að mæta alvarlegum heimsfaraldri? Er t.d. verið að setja viðbótarfjármuni til heilbrigðisstofnana vegna kórónaveirunnar eða ekki?
Þetta nefndi ég allt í fyrirspurn minni til ráðherrans en á svör hennar og umræðuna milli okkar má hlusta hér á neðan.
En ég nefndi einnig að þegar áföll dynja yfir okkur Íslendinga þá stöndum við saman. Þá er engin stjórn eða stjórnarandstaða, ekkert hægri eða vinstri. Bara ein þjóð í einu landi. Og við öll stöndum saman í því sem þarf að gera.
Fyrir rúmum 100 árum voru Íslendingar að glíma við eldgos og alvarlegan heimsfaraldur. Við skulum vona að hið sama gerist ekki núna.
Ég vil bæta því við að ef þessi tiltekna veira nær ekki heimsútbreiðslu, eins og við öll vonum, þá er það engu að síður einungis tímaspursmál hvenær alvarlegur flensufaraldur í ætt við spænsku veikina sem lagði allt að 50 milljónir að velli, mun ganga aftur yfir heimsbyggðina. Og það mun gerast í heimi þar sem samgöngur milli heimshorna eru margfalt meiri og hraðari en árið 1918.
En að því sögðu þurfum við að búast við hinu versta á meðan við vonum eftir hinu besta.”