Kóróna drepur íslenska menningu
Eru íslensk stjórnvöld að gera eitthvað viðlíka þessu?
Gunnar Smári skrifar:
Þýska stjórnin setur fram 50 milljarða evru pakka til að bjarga lista- og menningarlífinu sem hefur orðið fyrir höggi vegna samkomubannsins. En líka til að verja listafólk, fólk í skemmtanabransanum og slíkum greinum, sem flest eru verktakar, tilheyra harkhagkerfinu. Þjóðverjar ætla ekki að láta þetta fólk bera áfallið, ætla ekki að láta kórónaveiruna þurrka út listir og menningu. (Pakkinn tekur líka til blaðamennsku og fjölmiðla, svo það sé sagt; ég get þess hér þar sem það er lenska á Íslandi að halda að það sé eitthvað sem tilheyrir opinberri upplýsingaveitu eða þjónustu við stórfyrirtæki og stofnanir.)
En hvað er þetta stórt? Þetta er álíka og ef Lilja Alfreðsdóttir myndi kynna 33 milljarða króna pakka til að verja menningarstofnanir (hvernig haldið þið að árið líti út í Þjóðleikhúsinu, Borgarleikhúsinu eða hjá Sinfóníunni? Kvikmyndir þar sem tóku ættu að fara í gang í apríl, verja listafólkið (tekjustraumur þess þurrkaðist upp hraðar en hjá fólkinu sem vinnur við túrisma) og með nokkru aukabústi til að fá í gang einhverja sköpun og dreifingu á henni til að koma okkur í gegnum hinn dimma dal sem fram undan er. Menning er samtal, þar sem við getum speglað okkur svo við vitum hver við erum, hvað er að henta okkur, hvers er ætlast til af okkur o.s.frv. Svo má auðvitað hlátur og grátur fljóta með, jafnvel upplestur á gömlum ljóðum (en samt ekki of mikið, listafólkið ætti að láta upplýsingafulltrúum stjórnvalda eftir að hrópa húúú og kommaso).
En eru íslensk stjórnvöld að gera eitthvað viðlíka þessu? Ekki síðast þegar fréttist? Hafa þau ekki einu sinni nefnt þennan vanda? Nei, ég hef ekki heyrt það.