- Advertisement -

Kópavogsbær braut á öryrkjum

Mat úrskurðarnefndarinnar er að Kópavogsbær hafi afnumið hið skyldubundna mat með reglum sínum.

Úrskurðarnefnd velferðarmála hefur fellt úrskurð þar sem komist er að því að reglur Kópavogsbæjar um sérstakan húsnæðisstuðning fari í bága við stjórnsýslulög og þá sérstaklega rannsóknarreglu þeirra.

Málið snerist um leigjanda félagslegrar íbúðar hjá Kópavogsbæ. Leigjandinn sótti um sérstakan húsnæðisstuðning hjá bæjarfélaginu, en var synjað, sökum þess að í reglum Kópavogsbæjar sagði að stuðningurinn væri ætlaður þeim sem leigja á almennum markaði. Umsókn leigjandans var því hafnað strax á þeirri forsendu.

Í röksemdum Kópavogsbæjar kom fram að bæjarfélagið hefði ákveðið að fara þá leið að bjóða annars vegar upp á niðurgreitt félagslegt húsnæði, þar sem leigu er haldið í lágmarki, og hins vegar að bjóða þeim sem standi utan félagslega leigukerfisins upp á sérstakan húsnæðisstuðning, tengdan tekjum þeirra og eignum.


Reglur sveitarfélagsins hafi augljóslega þann tilgang að útiloka að þörfin verði skoðuð sérstaklega.

Í röksemdum kæranda kom fram að í málinu reyni á reglu sem útiloki alla sem ekki eru á almennum leigumarkaði og mál þeirra því ekki skoðuð frekar, þrátt fyrir að öll lagaákvæði sem við eiga í þessu máli, hafi þann tilgang að svara ákveðinni þörf. Reglur sveitarfélagsins hafi augljóslega þann tilgang að útiloka að þörfin verði skoðuð sérstaklega. Í málinu reyni á rétt kæranda til húsnæðisstuðning, sem séu félagslegar greiðslur sem verði ekki takmarkaðar nema með skýrum heimildum.

Mat úrskurðarnefndarinnar er að Kópavogsbær hafi afnumið hið skyldubundna mat með reglum sínum, en í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga hefur þeim verið eftirlátið mat á því hvort einstaklingi skuli veittur sérstakur húsnæðisstuðningur, samkvæmt nánari reglum sem sveitarstjórn setur. Þannig eigi þeir umsækjendur sem leigja félagslegt húsnæði ekki möguleika á að fá sérstakan húsnæðisstuðning.

Úrskurðarnefndin segir einnig í niðurstöðu sinni að samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga hvíli sú skylda á stjórnvaldi að sjá til þess að eigin frumkvæði, að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Markmið rannsóknarreglunnar er að tryggja að stjórnvaldsákvarðanir verði bæði löglegar og réttar.

„Þar sem Kópavogsbær lagði ekki sérstakt mat á umsókn kæranda, verður að telja að aðstæður kæranda hafi ekki verið rannsakaðar með fullnægjandi hætti, sbr. 10.gr. stjórnsýslulaga, áður en ákvörðun var tekin um að synja umsókn hans.“


Hin kærða ákvörðun var því felld úr gildi og málinu vísað til afgreiðslu sveitarfélagsins á ný.

Úrskurðarnefndin gat því ekki fallist á að það sjónarmið sveitarfélagsins, að því hafi verið heimilt að afnema matið á grundvelli þess að húsaleiga á almennum íbúðum væri að meðaltali hærri en á félagslegum íbúðum. Hin kærða ákvörðun var því felld úr gildi og málinu vísað til afgreiðslu sveitarfélagsins á ný.

Úrskurður þessi fell 15. ágúst 2019, en reglur Kópavogsbæjar standa enn óbreyttar. Þeim var síðast breytt í janúar 2019. Í Hafnarfirði eru samskonar ákvæði í reglum um sérstakan húsnæðisstuðning, en þar segir í 1. gr. reglnanna að ekki sé greiddur sérstakur húsnæðisstuðningur til leigjenda í félagslegu húsnæði bæjarins.

Skemmst er minnast dóms Hæstaréttar í máli gegn Reykjavíkurborg, þar sem reyndi á sérstakan húsnæðisstuðning, þar sem Reykjavíkurborg útilokaði ákveðinn hóp frá því að koma til greina. Í dómi Hæstaréttar segir að sú skylda hvíli á sveitarfélagi að gæta þess við afgreiðslu á umsókn um sérstakar húsaleigubætur að ekki væri á umsækjanda hallað í samanburði við aðra íbúa sveitarfélagsins sem nytu þeirra bóta.

Frétt af Öryrkjabandalagsins, obi.is


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: