Sperngisandur Konur verða gestir þáttarins Sprengisandur á Bylgjunni í fyrramálið, milli klukkan tíu og tólf. Tilefnið er ekki bara að þess var minnst í vikunni að 99 ár frá því að konur fengu kosningarétt.
Það er fleira sem kallar á að staða kvenna í stjórnmálum verði rædd. Sem dæmi skipa konur aðeins um fimmtán prósent ráðherraembætta í heiminum. Á Íslandi er konur þriðjungur ráðherra. Konur starfa skemur, hætta fyrr afskiptum, af stjórnmálum en karlar. Hvers vegna? Eiga þær að vera lengur, eða eiga karlar að hætta fyrr?
Hafa konur náð forréttindum á einstaka sviðum og stefnir í að þær verði meira ráðandi en karlar áður en langt um líður? Er rétt að rétta hlut kvenna í ábyrgðarstöðum með lagaboði, eða þróast málin í rétta átt?
Þessar spurningar og margar aðrar verða á borðinu. Til að svara þeim og ræða um stöðuna koma Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri í Hveragerði, Theódóra Þorsteinsdóttir forseti bæjarstjórnar í Kópavogi, Guðlaug Kristjánsdóttir forseti bæjarstjórnar í Hafnarfirði, Sóley Tómasdóttir forseti borgarstjórnar, Birgitta Jónsdóttir leiðtogi Pírata, Katrín Júlíusdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, þingmaður og fyrrverandi ráðherra, og Eygló Harðardóttir, sem meðal annars er jafnréttisráðherra.
Sprengisandur á Bylgjunni milli klukkan tíu og tólf í fyrramálið.