- Advertisement -

Konu dreymir fyrir skipstapa

Íslenskar frásagnir.

Frásögnin birtist í Lesbók Morgunblaðsins fyrir áttatíu árum.

Það var 20. mars árið 1847 að sjö manns drukknuðu á leið úr Stykkishólmi út í Krossanes, sem er fyrir utan Grundarfjörð. Þangað ætlaði fólkið í kynnisferð sér til skemmtunar og hafði þá undanfarnar vikur verið mesta veðurblíða og einmuna tíð. Til ferðarinnar var fengið stórt róðrarskip og reyndur formaður. Það var Einar Pjetursson úr Höskuldsey. Með honum var kona hans. Guðný dóttir Páls Fagureyings. Hún hafði áður verið gift Hans Hjaltalín Pálssyni. Aðrir sem ferðina fóru voru: Sigurður Þorbjörnsson frá Þurranesi í Saurbæ og svo Hólmarar sem ferðin var aðallega gerð fyrir, til þess að heimsækja sýslumannshjónin í Krossnesi, en þeir voru: Bjarni Bjarnason stúdent og kona hans Solveig, sem var bróðurdóttir Árna sýslumanns, og loks Erlendur Jensen, hálfdanskur snikkari og Katrín kona hans.

Sá hún þá að það var allt sjóvott…

Þennan vetur var Margrjet Magnúsdóttir, síðar prófastsfrú í Hvammi, þjónustustúlka hjá Jacobsen lyfsala í Stykkishólmi, en hún var systir Matthildar konu Þorsteins læknis Jónssonar í Vestmannaeyjum og dreymdi hana drauminn, sem hér verður sagður, en frásögnin er höfð eftir frú Margrjeti K. Jónsdóttur frá Hjarðarholti, sem Margrjet sagði drauminn. — Margrjetu hafði langað ákaft til þess að mega fara með í kynnisför þessa því að hún hafði þá áður verið nokkur ár í Krossnesi til náms og þjónustu og leit á sýslumannshjónin sem einskonar fósturforeldra sína því að þau höfðu reynst henni svo vel og kunnað að meta hæfileika hennar og gáfur. — Einhverra orsaka vegna fékk hún samt ekki þessa ósk sína uppfyllta og þar skildi vegi feigs og ófeigs, því að báturinn fórst, eins og áður var sagt með allri áhöfn.

Þú gætir haft áhuga á þessum

…heyrði hún glöggt mannamál niðri…

Margrjet svaf í herbergi uppi á lofti í húsi lyfsalans þar gekk hún til hvílu um kvöldið, eftir að ferðafólkið lagði á stað, eins og hún var vön. Hún sofnaði brátt og þá dreymdi hana, að hún væri stödd niðri í lyfjabúðinni og að þar væri hjá sér allt ferðafólkið sem með skipinu fór. Sá hún þá að það var allt sjóvott og lak vætan af því svo áð lækirnir runnu eftir gólfinu. Allt var fólkið standandi nema Guðný kona formannsins, hún sat á kofforti og Erlendur Jensen, sem var að gera ýmsar hreyfingar með höndum og fótum, en ekki skildi hún hvað það átti að þýða.

Þegar hún hafði horft lengi á fólkið og þekkt það allt, hrökk hún upp af svefninum og varð glaðvakandi, en í því heyrði hún glöggt mannamál niðri í lyfjabúðinni, eins og margt fólk væri að tala saman. Henni datt þá í hug, að einhverjir væru komnir til að sækja meðul og væru að spjalla við afgreiðslumanninn, og flýtti sér því í föt og lagði á stað niður stigann, en þá fann hún til svo átakanlegra áhrifa af draumnum, að henni fannst líklegast að ferðafólkið væri þarna í lyfjabúðinni. Það hefði orðið að snúa aftur og væri nú komið þarna sjúkt og sjóhrakið og þyrfti einhvers með úr lyfjabúðinni.

Henni brá því ekki lítið við þegar hún opnaði hurðina og leit inn, og sá engan mann. — í húsinu var allt í kyrrð og svefni nema vökumaðurinn, en hann hafði engra mannaferða orðið var um nóttina. — Margrjet fór nú aftur til hvílu, en varð lengi vel ekki svefnsamt og sofnaði ekki fyrr en leið undir morgun. — Daginn eftir barst svo fregnin um slysið til Stykkishólms.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: