- Advertisement -

Könnun MMR: Sósíalistar með fjóra þingmenn

Stjórnarflokkarnir myndu bæta við sig einum þingmanni ef niðurstöður nýrrar könnunar MMR myndu ganga eftir. Þau sem tapa mestu eru Miðflokkurinn, sem missir fimm af níu þingmönnum, og Flokkur fólksins, sem félli af þingi. Samfylkingin myndin líka tapa þingmanni, þeim sem flokkur fékk frá VG í vetur sem leið. Flokkar sem bættu við sig væru Sósíalistar með fjóra nýja þingmenn, Viðreisn með þrjá og Sjálfstæðisflokkurinn með einn þingmann umfram það sem nú er.

Í þingmönnum talið eru þetta niðurstöður könnunarinnar (innan sviga breytingar frá núverandi þingheim, þ.e. eftir flokkaflakk á kjörtímabilinu):

Ríkisstjórnin:

  • Sjálfstæðisflokkurinn: 17 þingmenn (+1)
  • VG: 9 þingmenn (óbreytt)
  • Framsókn: 9 þingmenn (óbreytt)


Ríkisstjórnin alls:

35 þingmenn (+1)Stjórnarandstaða I (hin svokallaða frjálslynda miðja):

  • Píratar: 7 þingmenn (óbreytt)
  • Samfylkingin: 7 þingmenn (–1)
  • Viðreisn: 7 þingmenn (+3)


Stjórnarandstaða I: 21 þingmaður (+2)Stjórnarandstaða II (nýtt hægri)

  • Miðflokkurinn: 4 þingmenn (–5)
  • Flokkur fólksins: enginn þingmaður (–2)


Stjórnarandstaða II: 4 þingmenn (–7)Stjórnarandstaða III, utan þings:

  • Sósíalistaflokkurinn: 4 þingmenn (+4)

Það er eitthvað sem alls ekki er að virka hjá Samfylkingunni og flokksmenn hljóta að vilja laga það áður en lengra er haldið.

Þessi könnun staðfestir vonda stöðu Samfylkingarinnar í upphafi kosningabaráttu. Flokkurinn mælist með 10,9% fylgi og hefur ekki mælst neðar á þessu kjörtímabili. Samfylkingin mældist með 16,7% í nóvember þegar undirbúningur undir röðun á lista hófst. Síðan hefur um þriðjungur af fylginu farið. Ef þetta væri ein könnun gæti Samfylkingin séð til, en þar sem þessi könnun staðfestir niðursveiflu flokksins og að ekkert lát virðist vera á henni, hljóta flokksmenn að taka þessa þetta alvarlega. Það er eitthvað sem alls ekki er að virka hjá Samfylkingunni og flokksmenn hljóta að vilja laga það áður en lengra er haldið.

Annað sem þessi könnun staðfestir er bati hjá öllum stjórnarflokkunum. Ef við miðum aftur við nóvember þá var samanlagt fylgi stjórnarflokkanna 42,4% en er í dag 52,0%. Þetta er töluverð sveifla. Og þótt að Sjálfstæðisflokkurinn falli frá síðustu könnun MMR, þar sem flokkurinn mældist undarlega hár, þá eru allir stjórnarflokkarnir á uppleið. VG er enn nokkuð undir kjörfylgi, Sjálfstæðisflokkur í kjörfylgi en Framsókn aðeins yfir. Framsókn virðist nú hagnast meira á falli Miðflokksins en Sjálfstæðisflokkurinn.

Miðflokkurinn mælist nú með 5,7% en MMR hefur aðeins einu sinni mælt flokkinn neðar, beint ofan í Klausturmálið. Flokkur fólksins er í 3,3% og hefur ekki mælst minni á þessu kjörtímabili. Samanlagt fylgi þessara flokka, sem tengja má saman sem ný-hægri-flokka, var 17,8% í kosningunum 2017 en mælst nú 9,0%, helmingurinn af fylginu er farið. Þessi sveifla er, fyrir utan vöxt Sósíalistaflokksins, eiginlega eina markverða breytingin á fylgi flokkanna á kjörtímabilinu.

Píratar mælast nú stærri en Samfylkingin og Viðreisn viðlíka stór. Báðir flokkar geta glaðst yfir þeim samanburði en samanlögð staða þessara þriggja flokka er ekki góð. Flokkarnir fengu samanlagt 28,0% í kosningunum en mælast nú með 32,8% eftir stjórnarandstöðu í bráðum fjögur ár, þar sem hinn hluti andstöðunnar er í frjálsu falli. Ef við tökum nóvember aftur sem viðmið, tíma þar sem hægt er að fullyrða að kosningabaráttan hafi ekki verið hafin, var samanlagt fylgi þessara flokka 39,4%. Það er eitthvað sem virkar illa fyrir hina svokölluðu frjálslyndu miðju.

Sósíalistarnir geta vel við unað. Þeir mælast nú jafn stórir Miðflokknum.

Sósíalistarnir geta vel við unað. Þeir mælast nú jafn stórir Miðflokknum og myndu fá fjóra þingmenn ef þetta yrði niðurstaða kosninga. Eftir því sem fleiri kannanir sýna Sósíalista örugga inni má reikna með að fleiri kjósendur telji þá raunhæfan kost. Og í ljósi þess að enn eru fjórir og hálfur mánuður til kosninga og að Sósíalistaflokkurinn er nýr flokkur í þeim slag, verður að segjast að það er mjög svo viðunandi staða að mælast með 5,7% fylgi og fjóra þingmenn inni. Reynslan frá síðustu kosningum er að mesta sveiflan í fylgi yfir kosningabaráttuna er til nýrra framboða.

Auk Sósíalista hafa tveir flokkar boðað framboð; Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn hans Guðmundar Franklíns forsetaframbjóðanda og Landsflokkur Jóhanns Sigmarssonar kvikmyndagerðarmanns. MMR spyr ekki sérstaklega um þessa flokka og því er þessi könnun ekki raunhæf mæling á fylgi þeirra. Ef það hefði mælst eitthvað fylgi við þessa flokka þá væri það falið inn í svörum 1,2% þátttakanda flokkaðir eru sem annað, en þar inni eru líka þau sem krossa við flokka sem buðu fram síðast en hafa ekki tilkynnt framboð í haust. Og þegar við skoðum inn í þetta kemur í ljós að af þessum 1,2 prósentum fær Alþýðufylkingin 0,8% og Björt framtíð 0,4%; Landsflokkurinn og Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn ekki neitt.

Aha, gæti einhver sagt. Er þarna ekki auka fylgi upp á 0,8% við Sósíalista? Er ekki líklegast að kjósendur Alþýðufylkingarinnar snúi sér þangað í ljósi þess að Þorvaldur Þorvaldsson er félagi í Sósíalistaflokknum ásamt fleiri flokksmönnum úr Alþýðufylkingunni? En það veit náttúrlega enginn, það getur enginn kíkt inn í hausinn á kjósendum. En í könnunum á þessu kjörtímabili hefur Alþýðufylkingin fengið frá engu fylgi upp í 1,5% einu sinni. Ef við skoðum samanlagt fylgi Sósíalistaflokksins og Alþýðufylkingarinnar þá er það nú 6,5% og var 6,5% í könnun MMR fyrir mánaðamót.

Samanlagt fylgi þessara flokka var 0,2% í síðustu kosningum. Samanlögð aukning á fylgi Sósíalista og Alþýðufylkingarinnar frá síðustu kosningum er því 6,3 prósentustig. Það er vinstri sveifla í gangi. Og það er eina sveiflan sem skiptir máli, því það er eina sveiflan sem gæti fært okkur einhverjar breytingar á samfélaginu. Með fullri virðingu fyrir hinum flokkunum.

En hvað hefur gerst á kjörtímabilinu?

Þessir flokkar hafa bætt við sig fylgi:

  • Sósíalistaflokkurinn: +5,7 prósentustig
  • Viðreisn: +3,9 prósentustig
  • Píratar: +2,1 prósentustig
  • Framsókn: +1,9 prósentustig

Þessi stendur í stað:

  • Sjálfstæðisflokkurinn: +0,4 prósentustig

Þessir hafa tapað fylgi:

  • Samfylkingin: –1,2 prósentustig
  • VG: –3,1 prósentustig
  • Flokkur fólksins: –3,6 prósentustig
  • Miðflokkurinn: –5,2 prósentustig

Könnunin var gerð frá síðasta föstudegi og lauk í gær, þetta var snögg helgarkönnun sem sýnir stöðuna í stjórnmálunum á þessum vordögum, þessum bólusetningardögum, #metoo-dögum og eldgosadögum.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: