Ég þakka líka þeim sem greiddu atkvæði gegn samningnum; fyrir að nýta atkvæðisréttinn sinn og standa með eigin sannfæringu.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, skrifar:
Ég þakka öllum félagsmönnum sem greiddu atkvæði með samningunum, fyrir að styðja þá og fyrir að treysta því að sú ákvörðun sem við tókum, um að lengra yrði ekki komist í bili, væri sú rétta. Ég þakka líka þeim sem greiddu atkvæði gegn samningnum; fyrir að nýta atkvæðisréttinn sinn og standa með eigin sannfæringu.
Við erum rétt að byrja; þó að vinnuaflið okkar sé enn þá verðlagt allt of lágt og þó að auðstéttin hafi enn þá fáránlega mikil völd á Íslandi þá hefur okkur þó tekist nokkuð stórmerkilegt; við höfum sjálf fengið að ákveða baráttuaðferðirnar og við höfum sjálf fengið að ákveða hvernig við tölum um hlutina. Í stað þess að allt sé endalaust og aðeins rætt út frá sjónarhorni og hagsmunum valdastéttarinnar er nú ekki hægt að komast hjá því að taka sjónarhorn vinnuaflsins og lífsskilyrði okkar, inn í dæmið. Við komum líka í veg fyrir að SA fengju að ákveða forsendurnar við samningaborðið; með því að hafna alfarið afturhaldssömum hugmyndum þeirra um vinnutímatilhögun, þar sem við áttum í raun að hefja leika með því að gefa frá okkur áunnin og „verðtryggð“ réttindi, komum við að mínu mati í veg fyrir stórslys á íslenskum vinnumarkaði.
Og svo tókst okkur það sem hlýtur að teljast merkilegt; að knýja á um að stjórnvöld kæmust ekki upp með að snúa sér undan erfiðleikum þeim sem launafólki á Íslandi hefur verið komið í vegna skeytingarleysis valdastéttarinnar, að þau yrðu að horfast í augu við vandann og bjóða lausnir í húsnæðismálum og skattkerfismálum.
Nú stöndum við sameinuð og komum í veg fyrir að kapítalistar láti ógeðslegar hótanir sínar um verðhækkanir verða að veruleika, aukin kaupmáttur er jú forsenduákvæði í samningnum og við tryggjum með því að halda áfram að vera „hættuleg“ að stjórnvöld standi við öll gefin loforð, „aðkoma“ þeirra er jú einnig forsenduákvæði.
Sjáumst fljótt, kæra fólk og gleðilegt sumar.